Skoðun
Hörður Ægisson

Þess virði?

Hörður Ægisson skrifar

Alþjóðlega fjármálakreppan, sem skall á fyrir nærri tíu árum, hratt í kjölfarið af stað einum mestu breytingum sem gerðar hafa verið á regluverki evrópskra fjármálafyrirtækja. Allar eiga það einkum sammerkt að miða að því að bankakerfið sé sjálfbært þannig að skuldbindingar þess falli ekki á ríkissjóð – heldur hluthafa og kröfuhafa – ef í harðbakkann slær. Ísland hefur í þessum efnum ekki verið nein undantekning. Þar munar hvað mestu um að kröfur um eigið fé hafa verið hertar stórkostlega, frá því að þurfa að vera að lágmarki 8 prósent yfir í rúmlega 20 prósent í dag, þannig að bankarnir geti staðið af sér mögulega stór efnahagsáföll.

Lítil sem engin umræða hefur hins vegar verið um þann kostnað sem sumar af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til eftir fjármálaáfallið, með það opinbera markmið að leiðarljósi að auka öryggi bankakerfisins, hafa fyrir efnahagslífið. Íslendingar hafa þannig gengið þjóða hvað lengst í Evrópu við innleiðingu á sérstökum eiginfjáraukum bankanna og auk þess beitt meira íþyngjandi aðferðum við útreikninga á áhættuvogum til að meta eiginfjárþörf þeirra. Afleiðingin er sú að bankarnir þurfa að binda um tvöfalt meira eigið fé heldur en þekkist almennt hjá evrópskum bönkum. Sú staðreynd skýtur nokkuð skökku við þegar litið er til lítillar áhættu um þessar mundir í þjóðarbúskapnum, hlutfall vanskila­lána er með því lægsta meðal banka í Evrópu og skuldsetning fyrirtækja og heimila hefur ekki verið jafn lítil um langt árabil.

En er það ekki aðeins af hinu góða að bankarnir búi við einar ströngustu eiginfjárkröfur sem þekkjast í Evrópu? Svarið við því er ekki endilega einhlítt. Í nýlegri rannsókn starfsmanna Seðlabanka Svíþjóðar er bent á að með því að framfylgja háum eiginfjárkröfum á banka geti það þýtt aukinn kostnað fyrir samfélagið sem felst í dýrari fjármögnun og skertu aðgengi að lánum. Það þurfi því hverju sinni að vega þann fórnarkostnað á móti þeim ávinningi sem hlýst af því að búa við öruggt bankakerfi sem sé ólíklegra til þess að ganga í gegnum reglulegar hremmingar með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur. Í því augnamiði er lagt til í minnisblaði bankans að vogunarhlutfall þarlendra banka, sem reiknast sem eigið fé sem hlutfall af heildareignum, sé á bilinu 5 til 12 prósent. Vogunarhlutfall íslensku bankanna er í dag um 17 prósent, sem er einsdæmi í Evrópu, en alþjóðlegar rannsóknir gefa til kynna að eins prósentustigs hækkun á því hlutfalli skili sér að jafnaði í sextán punktum hærri lánskjörum til fólks og fyrirtækja.

Allt ber þetta að sama brunni. Á meðan það er iðulega vinsælt að gera gjaldmiðilinn að blóraböggli fyrir háu vaxtastigi á Íslandi þá eru ástæðurnar hins vegar mun flóknari og margþættari. Raunveruleikinn er sá að þeirra er ekki síður að leita í heimatilbúnum aðgerðum stjórnvalda, eins og með uppbyggingu bankakerfisins. Strangar eiginfjárkröfur ásamt auknum álögum á fjármálakerfið eftir efnahagshrunið, einkum með hinum sérstaka bankaskatti, hafa skilað sér í því að við höfum búið til eitt dýrasta bankakerfi í Evrópu með neikvæðum áhrifum á framleiðni í atvinnulífinu. Er fórnarkostnaðurinn þess virði? Um það má stórlega efast. Hádegisverðurinn er nefnilega sjaldnast ókeypis. Reikningurinn er að lokum sendur til íslenskra heimila.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.