Innlent

Veiðifélag Víðidalsár átelur skipulagsstofnun fyrir hringlandahátt

Jakob Bjarnar skrifar
Þeim í Víðidalnum líst ekki á blikuna vegna sjókvíaeldis en veiðifélög um land allt hafa þungar áhyggjur af sjókvíaeldi sem til stendur að stórauka við Íslandsstrendur.
Þeim í Víðidalnum líst ekki á blikuna vegna sjókvíaeldis en veiðifélög um land allt hafa þungar áhyggjur af sjókvíaeldi sem til stendur að stórauka við Íslandsstrendur. einar falur
Veiðifélag Víðdalsár átelur Skipulagsstofnun fyrir hringlandahátt og mótmælir eindregið öllum hugmyndum um útgáfu eldisleyfa á norskum kynbættum laxi í opnum sjókvíum, bæði á Vestfjörðum sem og Austfjörðum.

Öflugt félag sem að Víðidalsá stendur

Veiðifélag Víðidalsár er öflugt félag en Víðidalsá er ein af þekktustu lax- og silungsveiðiám landsins. Áin rennur af húnvetnsku heiðunum um Víðidalinn og fellur þaðan í stöðuvatnið Hópið. Að baki félaginu standa 42 bæir.

Fundurinn sendi frá sér harðorða ályktun en tilefnið eru áform um stóraukið laxaeldi við Íslandsstrendur. Fyrir Alþingi er nú til meðferðar frumvarp um breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Og því vill Veiðifélag Víðidalsár senda frá sér ályktun um sjókvíaeldi, svohljóðandi:

Ályktun Veiðifélags Víðidalsár

„Aðalfundur Veiðifélags Víðidalsár haldinn í Tjarnarbrekku 9. apríl 2018 mótmælir öllum hugmyndum um útgáfu eldisleyfa á norskum kynbættum laxi í opnum sjókvíum bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Fundurinn minnir á að Hafrannsóknarstofnun leggst gegn stjórnlausu laxeldi í sjókvíum í áhættumati sínu og telur að það geti stórskaðað villta laxastofna landsins. Þá bendir fundurinn á nálægð við verðmætar laxveiðiár allt í kringum landið og þau miklu náttúruverðmæti sem þar eru í húfi.

Fundurinn átelur Skipulagsstofnun fyrir hringlandahátt svo sem í Ísafjarðardjúpi, þegar stofnunin dró til baka álit sitt nýverið þar sem stofnunin lagðist gegn fyrirhuguðu laxeldi.

Fundurinn skorar á núverandi umhverfisráðherra Guðmund Inga Guðbrandsson, að sitja ekki hjá í þessu mikilvæga náttúruverndarmáli.“

Ályktunin var samþykkt samhljóða og hefur hún verið send umhverfisráðherra sem og þingmönnum Norðvesturkjördæmis.


Tengdar fréttir

Segir norsk fiskeldisfyrirtæki spara milljarða á að flytja til Íslands

Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi og átta veiðifélög og veiðiréttarhafar krefjast þess að ógilt verði starfsleyfi Umhverfisstofnunar frá 22. nóvember síðastliðnum fyrir Arctic Sea Farm hf. á 4.000 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og laxi í opnum sjókvíum í Dýrafirði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×