Innlent

Aldrei fleiri skilið en í fyrra

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Á síðasta ári var metfjöldi lögskilnaða hér á landi samkvæmt tölum Þjóðskrár en á árinu voru 1.462 lögskilnaðir skráðir hjá stofnuninni. Þá var met slegið í skráningu hjúskapar í fyrra. 

Á síðasta ári gengu 21% fleiri í hjónaband en árið á undan samkvæmt tölum Þjóðskrár. Síðasti „toppur“ í skráningu hjúskapar var árið 2007. Í fyrra var líka metár þegar kom að skilnuðum þegar 1.462 lögskilnaðir voru skráðir og var það aukning um 57 frá árinu áður. En árið 2016 var einnig metár. Guðný Hallgrímsdóttir prestur hefur skrifað bók um skilnað og segir að meira þolgæði hafi einkennt fyrri kynslóðir. 

„Ég held að hér áður fyrr þá beit fólk bara á jaxlinn, bretti upp ermar og sagði við bara gerum þetta. Við stöndum saman í gegnum súrt og sætt. Eins og hjónabandið er, það er bæði súrt og sætt. Í dag hefur maður séð meira tilhneigingu fólks til að horfa bara á þetta sæta.”

Á Facebook er  hópur sem nefnist ertu að Skilja og skilur ekki neitt, þar sem fólk sem hefur skilið deilir reynslu og ráðum sín á milli. Kristborg Bóel Steindórsdóttir stofnandi hópsins sagði í samtali við fréttastofu að hún hafi eftir skilnað ákveðið að nýta sér reynslu sína til góðs og opna samfélagsumræðuna sem oft á tíðum sé þessum hóp ekki hliðholl.  Guðný Halldórsdóttir segir það vera rétt, fólk sem missi maka fái samúð í samfélaginu en þeir sem skilji fái oft lítinn skilning.

„Allar mínar rannsóknir bera að sama brunni, að sorgarferli þeirra sem missa maka sinn í dauða og þeirra sem skilja er oft mjög samhljóma. Hins vegar eru viðbrögð samfélagsins allt önnur eftir því um hvorn hópinn er að ræða. Því þegar maki deyr þá fær eftirlifandi mikla samúð frá samfélaginu. Það vantar hins vegar allt stuðningnet fyrir þá sem skilja.”

Guðný vill búa til námskeið fyrir þá sem hyggjast skilja því það sé svo margt sem fólk þarf að huga að í ferlinu.

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Guðnýju í heild sinni.


Tengdar fréttir

Nauðsynlegt að vera meðvituð um sorg þeirra sem skilja

Guðný Hallgrímsdóttir prestur hefur skrifað bók til að styðja þá sem skilja í átt til betra lífs. Skilnaður þarf ekki að vera það versta sem kemur fyrir fólk. Fólk þarf að vanda sig betur þegar það hefur ákveðið að skilja.

4.126 hjón hafa slitið samvistir

Hjónum sem slitið hafa samvistir á pappírum hefur fjölgað um fjórðung síðan eftir hrun. Giftum hjónum hefur fjölgað um 2,5 prósent. Búferlaflutningar maka sennilegasta skýringin, en gift hjón verða að hafa sama lögheimili. Ráðherra vill endurskoða lög um lögheimili.

Stíað í sundur eftir 65 ára hjónaband

Þau Aðalheiður og Stefán hafa verið gift í 65 ár en fá ekki saman inni á öldrunarheimili. Framkvæmdastjóri öldrunarheimila Akureyrar segir mikilvægt að aldraðir þurfi ekki að skilja að borði og sæng sökum heilsu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×