Erlent

Hafa áhyggjur af óbreyttum borgurum í Douma

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Hvert vígi uppreisnarmanna á fætur öðru hafa fallið undanfarnar vikur fyrir hernaðarmætti Sýrlenska stjórnarhersins og bandamanna þeirra í Rússlandi.

Fjöldi uppreisnarmanna hafa lagt niður vopn og fengið að flýja Austur Ghouta, úthverfi Damaskur, samkvæmt samkomulagi við Rússneska herinn.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að í síðustu viku lögðu 4500 skæruliðar á vegum uppreisnarhópsins Ahrar al-Sham niður vopn og fengu að ferðast norður til Idlib héraðs með rútum en héraðið er undir stjórn uppreisnarmanna.

Þá ferjaði í gær 101 rúta um 6400 uppgjafarhermenn og fjölskyldur þeirra frá uppreisnarhópnum Faylaq al-Rahman norður til Idlib.

Austur Ghouta hefur verið keppikefli í borgarastyrjöldinni en uppreisnarmenn hafa átt sér vígi í borgarhlutanum sem er úthverfi höfuðborgarinnar Damaskus. Síðan 27. febrúar hefur linnulaus sókn Sýrlandshers lagt undir sig megnið af svæðinu og hver uppreisnarhópur á fætur öðrum hefur lagt niður vopn.

Uppreisnarhópurinn Jaish al-Islam sem heldur vígi sitt í bænum Douma hefur boðist til að leggja niður vopn en harðneitað að semja um brottflutninga norður og hefur stjórnarherinn nú umkringt svæðið og býr sig undir stórsókn. Sameinuðu þjóðirnar segja að á svæðinu séu um 70 þúsund óbreyttir borgarar og hafa samtökin áhyggjur af afdrifum þeirra verði af sókn stjórnarhersins inn í borgarhlutann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×