Sala á rafbílum nærri tvöfaldaðist hér á landi í fyrra og búast sérfræðingar við frekari aukningu á þessu ári. Niðurfelling á vörugjöldum og sköttum hefur skilað sér í aukinni eftirspurn.
Óhætt er að segja að bílamarkaðurinn hafi blómstrað á síðasta ári og sló sala á nýjum bílum öll fyrri met.
Markaður með rafbíla tók einnig mikið stökk og nærri tvöfaldaðist á milli ára. Árið 2016 seldust 227 rafbílar en 415 í fyrra samkvæmt tölum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Þetta er aukning upp á 86 prósent.
Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir að niðurfelling á vörugjöldum og virðisaukaskatti hafi skilað sér í aukinni eftirspurn.
„Það hefur gert þessa bíla samkeppnishæfari,“ segir Runólfur.
Almennt hefur sala á vistvænum bílum farið vaxandi. Loftur Ágústsson markaðsstjóri BL segir að sala á tengitvinnbílum hafi margfaldast frá árinu 2015.
„Fyrir tveimur árum var sala á tengitvinnbílum bara lítill hluti en hún hefur tífaldast á tveimur árum,“ segir Loftur.
Sala á rafbílum nærri tvöfaldast
Höskuldur Kári Schram skrifar