Innlent

Gæslan segir ekki raunhæft að kaupa sjúkraþyrlur

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þyrlur Landhelgisgæslunnar sinna nú sjúkraflugi en fagráð sjúkraflutninga vill koma á fót minni sjúkraþyrlum.
Þyrlur Landhelgisgæslunnar sinna nú sjúkraflugi en fagráð sjúkraflutninga vill koma á fót minni sjúkraþyrlum. Vísir/Vilhelm
Skiptar skoðanir eru um ágæti þess að taka í notkun sérstakar sjúkraþyrlur hér á landi. Sjúkraflutningamenn segja að slíkar vélar geti bjargað mannslífum en Landhelgisgæslan telur hins vegar skynsamlegra að efla núverandi þyrlusveit.

Fagráð sjúkraflutninga leggur til í nýrri skýrslu að sérstakar sjúkraþyrlur verði teknar í notkun hér á landi til að stytta viðbragðstíma og minnka álag. Fagráðið vill koma upp þremur til fjórum starfsstöðum á landinu en áætlaður kostnaður á hverja þyrlu er um 650 milljónir á ári.

Styrmir Sigurðarson yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi fagnar þessari tillögu.

„Þetta er ein leiðin til að stytta viðbragðstímann og þar með auka gæði þjónustunnar. Þetta á algerlega heima í umdæmi eins og Suðurlandsumdæmi,“ segir Styrmir.

Styrmir segir að með sjúkraþyrlum megi draga úr álagi á sjúkrabílum og bregðast skjótt við alvarlegum tilfellum.

„Þær koma klárlega með til að skipta miklu máli, auka gæði þjónustunnar og bjarga mannslífum,“ segir Styrmir.

Auðunn Kristinsson verkefnastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni fagnar þessar umræðu en telur hins vegar skynsamlegra að efla þyrlusveit gæslunnar.

„Að okkar mati er ekki raunhæft að fara að stofna nýtt fyrirtæki, nýja stofnun með litlum sjúkraþyrlum. Við teljum að það eigi að bæta núverandi rekstur okkar, fjölga í áhöfnum og auka viðbragðsgetu okkar,“ segir Auðunn. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.