Erlent

Mótmælendur skoruðu á Pútín að hætta

Anton Egilsson skrifar
Vladimir Pútín Rússlandsforseti.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti. Vísir/AFP
Hundruð mótmælenda komu saman í Moskvu, höfuðborg Rússlands, í dag í því skyni að skora á forseta landsins, Vladímír Pútín, að bjóða sig ekki fram til endurkjörs í forsetakosningunum sem fram fara á næsta ári. Um friðsæl mótmæli var að ræða.

„Ekkert jákvætt hefur gerst í landinu okkar á hans vakt og ég hef þá tilfinningu að hlutirnir eigi bara eftir að versna. Aðal vandamálið er sú staðreynd að þeir sömu eru alltaf við völd,” sagði einn mótmælandanna í samtali við  fréttaveituna Reuters.

Hreyfingin Open Russia stóð fyrir mótmælunum en þau báru yfirskriftina „Við erum komin með nóg af honum“. Stofandi hreyfingarinnar er Mikhail Khodorkovsky en hann var eitt sinn auðugasti maður Rússlands og einn auðugasti maður veraldar. Khodorkovsky sat á bak við lás og slá í um áratug fyrir fjárdrátt og skattsvik áður en hann var náðaður af Pútín árið 2013.

Mál Khodorkovsky var mikið gagnrýnt á sínum tíma en stuðningsmenn hans hafa ávallt haldið því fram að ásakanir á hendur honum hafi verið af pólitískum toga en hann féll í ónáð hjá Pútín þegar hann styrkti stjórnarandstöðu landsins fjárhagslega. 

Pútín sem hefur ráðið lögum og lofum í rússneskum stjórnmálum síðastliðin sautján ár, bæði sem forseti og forsætisráðherra, hefur enn ekki gefið það út hvort að hann hyggist bjóða sig fram í forsetakosningunum í Rússlandi sem fram fara í mars á næsta ári. Það er þó gert sterklega ráð fyrir því að hann muni bjóða sig fram en hann nýtur mikils fylgis í heimalandinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×