Fylgdarlausum börnum sem koma til Íslands fjölgaði verulega árið 2016 þegar tuttugu einstaklingar komu, þar af tólf til Reykjavíkur. Fram að því höfðu um eitt til tvö börn komið á ári. Aldursgreining leiddi í ljós að af tólf fyrrgreindum einstaklingum reyndust fjórir átján ára eða eldri. Hinir voru börn sem barnavernd liðsinnir nú.

Halldóra segir það hafa verið rætt að búa til sérstakt heimili til þess að draga úr álagi á heimilið í Efra-Breiðholti. „En enn þá vill fólk fara þessa leið sem Barnaverndarstofa talar fyrir, að reyna að koma þeim fyrir á heimilum fólks með fjölskyldu,“ segir hún.
Halldóra segir að það hafi gengið þokkalega að koma börnunum fyrir hjá fósturforeldrum, en fósturforeldrunum hafi gengið misjafnlega með börnin. „Bara eins og alltaf þegar börn fara í fóstur og því eldri sem börn eru þegar þau fara í fóstur þeim mun flóknara getur það verið. Við höfum sögur um mál sem hafa gengið glimrandi vel og svo eru önnur mál sem hafa ekki gengið eins vel,“ segir Halldóra og bendir á að það hafi komið upp vandamál vegna tungumála eða ólíkra menningarheima.
Hún segir nokkur dæmi þess efnis að vist hjá fósturforeldrum hafi ekki gengið upp og börnin því þurft að fara þaðan. „Það er ekki algengt en það gerist og þá verðum við bara að taka stöðuna út frá því.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu