Ef rýnt er í tölur um sjálfsvíg á Íslandi frá árunum 1996 til 2014 má sjá að dánartíðni vegna sjálfsvíga hefur alla jafna verið umtalsvert hærri meðal karla en kvenna.
Sjálfsvígstíðni hæst meðal ungra karla
Hlutfall kvenna sem fremja sjálfsvíg er að meðaltali lægra á Íslandi en til að mynda hjá nágrönnum okkar í Danmörku. Þar í landi voru konur ríflega 30 prósent þeirra sem féllu fyrir eigin hendi 2015 og árið 2014 voru konur 25 prósent þeirra sem létust vegna sjálfsvígs.
Ef litið er vestur um haf til Bandaríkjanna má sjá að dánartíðni þar í landi vegna sjálfsvíga er talsvert hærri meðal karla en kvenna en samkvæmt vefsíðu Bandarískra samtaka vegna sjálfsvíga látast að meðaltali 3,57 sinnum fleiri karlmenn á ári hverju vegna sjálfsvíga en konur.
Ef litið er á tíðni sjálfsvíga á mismunandi aldursskeiðum má glöggt sjá að ungir karlmenn eru sá hópur sem er í mestri áhættu á að falla fyrir eigin hendi, bæði hér á landi sem og í Danmörku og Bandaríkjunum.
Ekki er fjallað sérstaklega um sjálfsvígstilraunir í Kynlegum tölum en samkvæmt grein sem birtist í Læknablaðinu 2004 voru 61 prósent þeirra sem lagðir voru inn á gjörgæsludeild Landspítala á árunum 2000 til 2004 vegna alvarlegra sjálfsvígstilrauna kvenkyns. Þá eru innlagnir vegna sjálfsskaða jafnframt tíðari hjá konum en körlum.
Fleiri konur glíma við þunglyndi en karlar
Hlutfall íbúa með þunglyndiseinkenni á höfuðborgarsvæðinu 2015 er hærra meðal kvenna en karla. Alls glíma 5,1 prósent kvenna við alvarleg þunglyndiseinkenni samanborið við 2,9 prósent karla.
Samkvæmt rannsókn um lyfjanotkun karla og kvenna frá árinu 2014 notuðu konur allt að 70 prósentum meira af þunglyndislyfjum en karlar en rannsóknin var gerð á árunum 2004 til 2013. Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að kynjamunurinn jókst jafnt og þétt með árunum.
Í bæklingnum Kynlegar tölur voru einnig birtar tölur um kyn þeirra sem létust í umferðinni en alls urðu átján banaslys í fyrra. Á meðal hinna látnu voru aðeins fimm konur, eða um 28 prósent.

Aldrei hafa fleiri komið á Neyðarmóttöku vegna nauðgana en árið 2016. Alls leituðu 169 til móttökunar á árinu, 161 kona og átta karlmenn. Árið 2015 kom 121 kona og tólf karlar á móttökuna. Lang stærstur hluti þeirra sem komu á móttökuna á árunum 2000 til 2016 er á aldrinum 18 til 25 ára.
Athygli vekur að hlutfall á milli heimsókna á móttökuna og kærðra mála hefur ekki aukist á undanförnum fjórum árum. Árið 2015 voru til að mynda 47 prósent mála kærð en árið 2016 voru 40 prósent mála kærð.
Komur á Neyðarmóttöku vegna nauðgana utandyra í Reykjavík voru alls átta talsins, fjórar áttu sér stað í miðbænum en fjórar annars staðar í borginni. Þess má hins vegar geta að aðeins 31 prósent kvenna upplifa sig öruggar í miðborg Reykjavíkur eftir að myrkur er skollið á eða eftir miðnætti um helgar á meðan 87 prósent kvenna upplifa sig örugga í eigin hverfi eftir sólsetur.
Lesa má upplýsingabæklinginn Kynlegar tölur í heild sinni hér.