Innlent

Eskfirðingum ráðlagt að halda sig heima

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Búið er að losa þá bíla sem sátu fastir í dag.
Búið er að losa þá bíla sem sátu fastir í dag. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á Eskifirði biðlar til íbúa í bænum að vera ekki á ferðinni að óþörfu vegna vonskuveðurs og ófærðar. Veður er víða slæmt á Austurlandi og er ófært um Fagradal. Stórhríð og snjóþekja er á Möðrudölum, á Fjarðarheiði er þæfingur og stórhríð, þungfært er upp að Norðfjarðargöngunum Eskifjarðarmegin og stórhríð og þungfært er í Fannadal. Ófært er á Öxi og Breiðdalsheiði.

Björgunarsveitarfólk kallað út í dag

Björgunarsveitarfólk var kallað út í dag til að aðstoða ökumenn sem sátu fastir. Einnig aðstoðuðu björgunarsveitarmenn við sjúkraflutninga.

Bergmann Þór Kristjánsson, formaður Björgunarsveitarinnar á Eskifirði, segir að allt sé að verða rólegt núna. „Fólk er farið að halda sig heima og við erum komnir í hús og farnir að slaka á,“ segir Bergmann. Þá brýnir hann fyrir fólki að halda sig heima. „Það er alveg rosalega blint og vont veður svo við ráðleggjum fólki að halda sig heima.“

Búið er að losa þá bíla sem sátu fastir í dag. Einnig fylgdi björgunarsveitin sjúkrabíl á Neskaupstað. „Það er mun auðveldara núna eftir að göngin komu. Þau skipta miklu máli þegar kemur að þessu,“ segir Bergmann.

Veðrið á að ganga niður í nótt eða í fyrramálið og eru björgunarsveitir tilbúnar ef eitthvað kemur upp á. „Við verðum á vaktinni í nótt og í fyrramálið en við vonumst náttúrulega til þess að það gerist ekki neitt. Bíllinn er klár og við erum klárir ef eitthvað gerist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×