„Ég er hrifin af því að gera hátíðarútgáfur af venjulegum mat og það er svo margt við þessar pítsur sem minnir mig á jólin,“ segir Bjargey Ingólfsdóttir, sem gefur lesendum uppskriftir að tveimur ómótstæðilegum pítsum sem gott er að njóta á aðventunni og um hátíðarnar.
Bjargey er húsmóðir í Kópavogi og þriggja barna móðir. Hún hlakkar til að eiga jólafrí með fjölskyldunni, vera saman á náttfötunum, spila og gera eitthvað skemmtilegt saman.
„Ég vil frekar slaka á með börnunum, föndra og fá okkur heitt kókó heldur en að standa í stórhreingerningum eða jólastressi í umferðinni og búðum. Þetta er tími til að njóta og slaka á með ástvinum. Við höldum í ýmsar jólahefðir, eins og að skera út laufabrauð með stórfjölskyldunni og horfa á jólamyndina Christmas Vacation áður en farið er í háttinn á Þorláksmessu.“

„Mínar bestu minningar eru úr barnæskunni. Mamma gerði alltaf svo mikið með okkur systkinunum fyrir jólin og ég man hvað ég varð glöð þegar ég mátti skreyta herbergið mitt og jólaljósin voru sett út í glugga. Samverustundirnar standa upp úr og þannig vil ég að mín börn muni eftir sínum jólum; hvað það var gaman að njóta hátíðanna saman.“
Hægt er að fylgjast með jólaundirbúningi Bjargeyjar og fjölskyldu á bjargeyogco.com og á Snapchat undir bjargeyogco.

Pítsabotn
Pítsasósa
Rifinn ostur
Hráskinka
Mozzarella-ostakúlur
Klettasalat
Ristaðar hunangshnetur
Bakið pítsabotn að eigin vali, heimagerðan eða beint úr búðinni. Setjið pítsasósu á botninn og rifinn ost. Bakið við 200°C í 10 mínútur. Takið bakaða pítsuna úr ofninum og setjið mozzarella-kúlur, klettasalat og hráskinku yfir. Stráið að síðustu ristuðum hunangshnetum yfir en þær gefa pítsunni dásamlegt jólabragð.

Pítsabotn
Pítsasósa
Fullelduð kalkúnabringa
Rifinn ostur
Döðlur
Sultaður rauðlaukur
Mascarpone-rjómaostur
Klettasalat á toppinn
Magn af áleggi fer eftir smekk hvers og eins, og er tilvalið að nota afganga af hátíðarkalkún. Búið til sultaðan rauðlauk með því að steikja rauðlauk upp úr íslensku smjöri og púðursykri þar til laukurinn er orðinn mjúkur og með karamelluáferð. Bakið pítsuna með kalkún, osti, döðlum og mascarpone við 200°C í 10 mínútur eða þar til hún er tilbúin. Setjið sultaðan rauðlauk og klettasalat á toppinn og njótið vel!
Þessi grein birtist fyrst í Jólablaði Fréttablaðsins 28. nóvember 2017.