Lífið

Taka áhættu með því að stíga fram

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Heiða Björg, Unnur Brá, Björt og Rósa í Ráðhúsi Reykjavíkur, komnar saman til skrafs og ráðagerða.
Heiða Björg, Unnur Brá, Björt og Rósa í Ráðhúsi Reykjavíkur, komnar saman til skrafs og ráðagerða. Vísir/anton brink
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar og stofnandi Facebook-hópsins Í skugga valdsins, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra og Unnur Brá Konráðdóttir fyrrverandi forseti Alþingis ræða um þann kúltúr sem konur búa við í heimi stjórnmála og leiðir til úrbóta.

Frá því í byrjun vikunnar hafa konur í stjórnmálum í öllum flokkum sagt frá kynferðislegri áreitni, misrétti og kvenfyrirlitningu sem þær verða fyrir í starfi frá félögum sínum. Sögurnar lýsa menningu sem ljóst er að þarf að uppræta öllum til bóta og ræða á opinskáan máta.

Unnur: Ég hef ekki skrifað neitt inn á þessa Facebook-síðu. Ég, eins og fjölmargar aðrar konur, á að baki sögur sem lýsa kvenfyrirlitningu eða fela í sér áreitni. Fyrst þegar við ræddum þetta í flokknum fannst okkur sem við hefðum ekki lent í neinu „alvarlegu“ en svo þegar við fórum að ræða betur saman sáum við ástæðu til að skrifa undir. Okkur finnst jafnalvarleg skilaboðin sem við fáum og lýsa fyrirlitningu og ýmislegt annað sem Áslaug Arna hefur komið inn á.

Björt: Ég segi eins og Áslaug Arna, manni finnst það að ræða þessi mál geta veikt mann. Maður veit að þetta snýr að mönnum sem sitja fyrir framan mann á ríkisstjórnarborðinu. Maður hugsar: Ég er svo sterk, ég get höndlað þetta. Ég veit að sendiboðinn er skotinn. Ég nenni ekki að standa í því. Ég þarf að velja mína slagi. En svo fæ ég djúpt samviskubit þegar ég hugsa um það að ég er ekki að ryðja brautina fyrir yngri konur. Þá líður mér illa yfir því að ég hafi ekki tekið slaginn.

Unnur: Mér dettur í hug að ef að við höfum styrkinn í það þá ættum við oftar að tala við þann sem fer yfir mörkin. Segja mjög skýrt við viðkomandi að hann sé að fara yfir mörkin. Ég finn að í sumum tilfellum ef mörkin eru ekki skýr, þá hafa sumir ekki skilning á því hvað er rétt eða rangt. Því miður. Ég gæti til dæmis sagt: Ég vil að þú hættir að hringja í mig á kvöldin. Ef eitthvað slíkt truflaði mig. Á sama tíma og ég segi þetta, þá er það auðvitað ekki á okkar ábyrgð að stöðva áreitni. En ég held samt að það væri gott að efla bæði kynin í að ræða opinskátt um hvar mörkin liggja.

Rósa: Pólitík er þess eðlis að maður þarf að brynja sig. Það eru alls konar áreiti og leiðinlegheit sem fylgja stjórnmálaþátttöku. Um leið og maður brynjar sig til að geta einbeitt sér að málefnum sínum þá leiðir maður hjá sér kynferðislega áreitni sem maður hefur orðið fyrir og segir við sig: Ég get alveg tekið þetta. Reynir að gera lítið úr henni og segir við sjálfa sig að viðkomandi karl sé fáviti og skipti ekki máli. Það sem svona átak leiðir í ljós er hins vegar að við getum ekki tekið þetta á okkur. Þegar þessu er safnað saman, þá myndgerist áreitnin, það rifjast upp alls konar hlutir sem eru fullkomlega óeðlilegir. Maður hefur alltaf afgreitt þennan kúltúr þannig að þetta sé nú skíturinn sem fylgir því að vera stjórnmálakona.

Það hefur verið sagt við mig af ráðherra: Ég get ekki hlustað á þig þegar þú ert að halda ræðu heldur horfi bara á þig og hugsa með mér hvað þú sért nú sæt. Sami ráðherra hefur sagt mér að hann viti nú ýmislegt um einkalíf mitt á þeim tíma sem ég var einstæð. Þetta eru dæmi um valdbeitingu og kvenfyrirlitningu sem við verðum fyrir og er algjörlega óásættanleg. Þetta er tæki, þar sem það er verið að búa til valdaójafnvægi. Skilaboðin eru þessi: Mundu það að þú ert nú kona sem átt að vera sæt og ég veit nú ýmislegt um þig.

Heiða: Einhverjum finnst erfitt að við séum að ræða bæði misrétti, kvenfyrirlitningu og kynferðisofbeldi. En þetta er það kynjakerfi sem við búum í. Allt það sem við erum að ræða eru birtingarmyndir þess að karlar halda að þeir hafi ákveðin völd yfir líkömum kvenna. Þetta eru hlutir sem við þurfum að ræða. Mér finnst rétt að blanda saman valdbeitingunni og fyrirlitningunni. Þetta eru tvær hliðar á sama peningi. Það er síðan sérstaklega alvarlegt að þetta sé kúltúrinn í stjórnmálum því það er okkar lýðræðislega leið til að stjórna samfélaginu.





Björt: Hún er líka umhugsunarverð staðan sem við stjórnmálakonur erum í. Um leið og maður tekur slaginn er maður mögulega að útiloka gott starf á milli flokka í ráðum og nefndum sem gæti komið málefninu sem brennur á manni til góða. Maður þarf að velja sínar baráttur og þess vegna hef ég látið sumt slæda. Maður er kannski að berjast í því að ná markmiði sem skiptir samfélagið öllu máli og þá skiptir það mig engu máli að einhver kjáni sé í ruglinu og viti ekki betur. En ég er hugsi yfir þessu, samviskubitið situr eftir. Verð ég ekki að taka á þessu fyrir næstu konu? Konu sem hefur kannski ekki sama attitjúd og ég, eða hefur minni völd? Yngri?

Og af hverju eru konur að detta úr stjórnmálum? Ég trúi því ekki að það sé eingöngu vegna þess að þær vilji bara eyða tíma sínum í eitthvað annað. Það er kannski væmið að segja það en ég á baráttukonu fyrir móður og ég á dóttur og þegar ég horfi á hana, þá hugsa ég stundum: Er ég að skilja þetta eftir fyrir hana?

Unnur: Við verðum að laga þetta fyrir bæði dætur okkar og syni. Þau eiga ekki að fara í gegnum þetta sem við höfum látið viðgangast. Ég er ánægð með það að við séum farnar að tala um þetta. Það er auðveldara fyrir konur sem lenda í áreitni og fyrirlitningu í starfi að segja: Þetta er ekki í lagi!

Rósa: Með því að lyfta lokinu er líka verið að draga mörk.

Heiða: Áreitni og fyrirlitning slær konur út af laginu. Eins og gerðist þegar Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkona Vinstri grænna, fékk athugasemd frá samstarfsfélaga sínum á þingi, þingmanninum Brynjari Níelssyni. Svo gerðist það á pallborði núna í október fyrir kosningar að það var karl að káfa á konu fyrir framan heilan menntaskóla!

Unnur: Ef þetta væri núna, þá hefði hún kannski haft styrk til að segja: Af hverju ertu að káfa á mér fyrir framan allt þetta fólk?

Björt: En ég held að fólk vanmeti að það þarf ótrúlegan kjark til að gera það og það hafa hann ekki allir. Þurfa ekki allir að hafa hann. Við þurfum ekki að bera ábyrgðina á þeim sem beitir áreitni eða ofbeldi.

Rósa: Fyrir utan það að viðbrögðin eru alls konar. Maður getur frosið eða farið að hlæja jafnvel og konum líður ekki heldur vel með það, því þau viðbrögð eru notuð gegn þeim. Með því að setja mörk eflum við okkur í að bregðast við á „réttan“ hátt án þess þó að ég sé að varpa ábyrgðinni á konur sjálfar. Alls ekki.

Heiða: En svo eru mörkin bara skýr. Gleymum því ekki. Þú káfar ekki á öðru fólki. Grípur ekki í brjóst, rass og kynfæri. Það er ekki eins og það sé eitthvað á gráu svæði eða að karlar viti ekki að þeir eigi ekki að gera það.

Björt: Ég hef margoft lent í því að einhver tekur utan um mig, eða klappar mér á bak. Svo bara rennur höndin niður á rass!

Heiða: Ó, ég hef sko líka lent í því. Ég hugsaði: Æi, ég er fædd 1971. Þetta hefur engin áhrif á þig. En það hefur áhrif, maður krumpast alveg inni í sér.

Björt: Þú ferð fyrr úr partíinu. Nennir þessu ekki. Ert ekki jafn áhugasöm um að taka þátt í viðburðum þar sem hætta er á  þessu rugli.

Rósa: Skilaboðin eru að þú sem stjórnmálakona þarft bæði að brynja þig gegn leiðinlegu áreiti í stjórnmálavafstri og kynferðislegri áreitni. Það er ekki skrýtið að konur hætti í stjórnmálum.

Björt: Það er svo vont fyrir lýðræðið að maður þurfi að klæða sig í þessa brynju og reyna að láta sér líða vel í henni.

Unnur: Mér finnst mikilvægt að fá karla til að taka þátt í þessu. Að þeir séu með okkur í þessu. Að við séum að ræða við þá líka.





vísir/anton brink
Rósa: Mér sýnist það sé að gerast. Nokkrir karlar á þingi tóku sig saman og vilja vinna gegn þessari menningu. Það er bara byrjunin á hugarfarsbyltingu. Svo koma nýjar kynslóðir inn á þing. Með því að kynjafræðsla er kennd í framhaldsskólum eru að verða breytingar. En svo þarf líklega meira til. Unnur reyndi til dæmis að breyta starfsháttum þingsins. Gera það sveigjanlegra fyrir fjölskyldur. Bæði konur og karla. En við erum að sjá bakslag. Konur að falla út af þingi. Við þurfum að breyta þessu. Gera betur.

Heiða: Og þetta er ekkert einfalt. Þetta er alls staðar og bæði konur og karlar eru hluti af þessari menningu sem birtist okkur á svo margan hátt með valdbeitingu, áreitni, ofbeldi, hunsun eða kvenfyrirlitningu. Ég man til dæmis eftir konu sem gekk vel í prófkjöri. Flokksfélagi hennar óskaði henni til hamingju, gekk svo til eiginmanns hennar og spurði: Ert þú ekki meistarinn á bak við þetta allt saman? Sú hin sama verður fyrir því að skoðanir mannsins hennar eru gerðar að hennar eigin. Þessu lendum við margar svo oft í.

Unnur: Þú ert kannski að ræða mál á þingi og segir brýnt að framkvæma eitthvað á ákveðinn hátt. Þá stígur karl fram og endurtekur orðin. Svo tekur annar karl til máls og tekur undir. En ekki með konunni sem steig fyrst fram heldur með karlinum! Þetta gerist alls staðar.

Heiða: Ég hef lent í því að halda ræðu á fundi þar sem fundarstjóri endurtók hluta þess sem ég sagði og sá sem talaði á eftir mér vitnaði í fundarstjórann sem var karlmaður en ekki í mig. Ég held að karlar þurfi að verða meðvitaðri um þetta. Ég er ekki viss um að þeir átti sig á því að þeir eru frekar að hlusta á karlana.

Björt: Vinnustaðir í landinu eru komnir miklu lengra en Alþingi hvað varðar að taka á þessum kúltúr. Það er ekki heillandi að ganga inn í heim stjórnmálanna í dag. Það er mikið afturhvarf til fortíðar og það er hættulegt lýðræðinu.





Hafið þið hugsað um að hætta?

Rósa: Nei. En ég hef verið oft mjög þreytt. Ég held að við höfum allar upplifað það.

Unnur: En maður má ekki segja að maður hafi viljað hætta.

Heiða: Þetta tekur ótrúlega mikið á.

Rósa: Það eru svo margar fleiri baráttur, fleiri slagir sem við þurfum að taka en karlar að það er skiljanlegt að við verðum þreyttar.

En haldið þið að ykkur verði refsað eða þið útilokaðar fyrir að stíga svona fram?

Björt: Ég get alveg séð það gerast, einhvers staðar í einhverjum kreðsum verður þessu tekið sem árás. En það er ekki þannig í mínum flokki að minnsta kosti. En það eru leiðir til að útiloka frá nefndum og embættum án þess að það sé mjög augljóst.

Rósa: Yfirleitt kemur bakslag eftir svona stórt átak. Þá byrja karlar að grafa undan okkur. Spyrja hvort þeir megi nú ekki segja neitt. Hvort það sé bara verið að útiloka þá frá öllu. Mála þá alla upp sem dónakalla. Þá byrjar líka baktalið og rógurinn. Kemur upp eitthvert svona tal: Hún vill nú bara komast fram af því hún er kona, veit nú ekki alveg hvað hún er að gera á þingi.

Heiða: Eða hún er sögð erfið í samskiptum, eða að hún sé að glíma við eitthvað. Stundum gerist þetta bara allt í einu.

Konur hafa lýst því að allt í einu eftir að þær hafa sett mörk, þá voru þær allt í einu orðnar svo erfiðar. Við sem erum að stíga fram erum að taka áhættu. Það hafa alveg nokkrir karlar haft samband við mig, hvernig þeir eigi að vita hvernig þetta eigi allt saman að vera. Er verið að tala við mig? En þetta fjallar ekkert um það. Við erum ekki að benda á karla og flokka. Við erum að benda á kúltúr.





Unnur: Já, þeir upplifa óöryggi. Ég held að karlar og ungir menn vilji vita reglurnar, mörkin. Það er fullt af fólki, bæði konum og körlum, sem trúir því að samfélagið sé best ef bæði kynin eru með. Við erum fremst í jafnrétti hér á landi og eigum að halda því forskoti.

Rósa: Já, við eigum að fara saman í þetta. Við erum engin ógn hvort við annað, kynin. Ég er alltaf til í að rabba um þessi mál við karla sem vilja vita meira.

Björt: Ég held að við gætum gert getur. Vandað orðin okkar betur. Fyrir vel meinandi karla sem vilja vera í lagi. Tala um þessa hluti á minna menntaðan hátt, ég leyfi mér að segja það. Ég er menntuð í kynjafræði og get alveg séð að fyrir einhvern sem er það ekki er erfitt að taka á móti öllum þessum hugtökum. Þeir bara ná þessu ekki. Við þurfum að tala öðruvísi til þeirra. Þeirra sem sannarlega vilja vera með. Ég er algjörlega ekki að segja að það sé okkar ábyrgð eða kerfisfrasanum að kenna.

Unnur: Ég er alveg sammála þér. Það er ekki hægt að leysa vandamálið ef þú skilur ekki í hverju það felst.

Rósa: En orð eru til alls fyrst. Að tala. Sýna mörkin. Ég held að allir flokkarnir verði núna að taka þetta upp hjá sér.

Heiða: Við tökum ekki þennan slag ein og ein. Við tökum hann öll saman, konur og karlar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.