Innlent

Hvorki þörf á nýrri rétt né fjárrekstri um þjóðveg 1

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gunnar Jónsson, skógræktarbóndi á Króki í Norðurárdal.
Gunnar Jónsson, skógræktarbóndi á Króki í Norðurárdal.
Gunnar Jónsson, eigandi jarðarinnar Króks, segir ýmsa möguleika fyrir hendi til að leysa deiluna um fjárrekstur á haustin um land hans að Þverárrétt.

„Landeigandinn hefur til dæmis boðið upprekstrarfélaginu þrjá kosti til þess að koma fénu um Króksland til Þverárréttar að hausti. Þeim tilboðum hefur öllum verið hafnað en eigendum jarðarinnar verið boðið upp á þá lausn að afhenda upprekstrarfélaginu tvo þriðju hluta þess lands sem Hæstiréttur dæmdi að væri þeirra eign,“ segir Gunnar.

Króksbóndinn gagnrýnir bæði Gunnlaug A. Júlíusson, sveitarstjóra Borgargbyggðar, og Kristján Franklín Axelsson, formann upprekstrarfélagsins fyrir orð þeirra í Fréttablaðinu 1. nóvember. Ekki sé þörf á nýrri rétt eins og haft sé eftir Kristjáni.

„Það er heldur ekki þörf á því að reka féð eftir þjóðvegi eitt. Það nægir að virða girðingalög og dóm Hæstaréttar og þiggja þá fyrirgreiðslu sem þeim upprekstrarmönnum hefur lengi staðið til boða. Sá möguleiki virðist ekki vera fyrir hendi. Þess vegna hefur þessu máli verið vísað til dómstóla,“ segir Gunnar. Þá sé haft eftir sveitarstjóranum að upprekstrarfélagið hafi notað hluta af Krókslandinu í 90 ár í þeirri góðu trú að það ætti landið.

„Rétt er að geta þess að allan þann tíma var umrætt land þinglýstur hluti jarðarinnar samkvæmt landamerkjaskrá, sem staðfest var af formanni upprekstrarfélagsins. Það er heldur ekki rétt, sem sveitarstjórinn gefur til kynna, að leiðin úr afréttinni til byggðarinnar liggi um einhvers konar einstigi eða „trekt“ í gegnum Krókslandið.“  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×