Innlent

MH bar sigur úr býtum í Boxinu

Anton Egilsson skrifar
Liðin átta sem kepptu til úrslita í Boxinu í dag. Fremstir eru liðsmenn MH sem sigruðu keppnina.
Liðin átta sem kepptu til úrslita í Boxinu í dag. Fremstir eru liðsmenn MH sem sigruðu keppnina. Háskólinn í Reykjavík
Lið Menntaskólans við Hamrahlíð fór með sigur af hólmi í Boxinu, framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík í dag.

Í keppninni þurftu liðin að leysa fjölbreyttar þrautir sem reyna á verklega og bóklega þekkingu, hugvit, verklag, útsjónasemi og samvinnu þátttakenda.

„Meðal þeirra þrauta sem liðin glímdu við í ár var að hanna og smíða brú úr einu kílói af spaghettíi, forrita díóðulampa fyrir þörungaræktun, smíða bíl úr gosdrykkjadósum og greina gögn úr lygamæli,” segir í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.

Átta lið frá jafnmörgum framhaldsskólum kepptu til úrslita í dag en alls 27 lið tóku þátt í undankeppni Boxsins sem haldin var nýlega í framhaldsskólum landsins. Fór svo að lokum að lið Menntaskólans úr Hamrahlíð bar sigur úr býtum en skólinn sigraði keppnina einnig í fyrra. Þá hafnaði lið Menntaskólans Í Reykjavík í öðru sæti keppninnar og lið Fjölbrautarskóla Suðurlands í því þriðja.

Vinningslið MH skipuðu þeir Árni Haukur Árnason, Birkir Jóhannes Ómarsson, Davíð Sindri Pétursson, Gunnar Dofri Viðarsson og Þorsteinn Jónsson.

Var þetta í sjöunda sinn sem Boxið er haldið en að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Markmið með Boxinu er að kynna og vekja áhuga nemenda í framhaldsskólum á verk- og tækninámi og fjölbreyttum störfum í iðnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×