Innlent

Svefnvana íbúar ósáttir við rútur á Hverfisgötu

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á safnstæði fyrir hópferðabíla við Snorrabraut við litla hrifningu íbúa á Hverfisgötu 108.
Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á safnstæði fyrir hópferðabíla við Snorrabraut við litla hrifningu íbúa á Hverfisgötu 108. vísir/stefán
„Það er verulegt ónæði af þessu og rúturnar koma á öllum tímum sólarhringsins, þremur metrum frá svefnherbergjum fólks,“ segir Gísli Viðar Þórisson, formaður húsfélags Hverfisgötu 108. Hann segir íbúa verulega ósátta við að safnstæði fyrir hópferðabíla hafi verið komið fyrir framan við húsið Snorrabrautarmegin.

Stæðið á rætur sínar að rekja til banns við akstri hópbifreiða í miðborginni sem tók gildi 15. júlí síðastliðinn. Samhliða því var komið upp tólf svokölluðum safnstæðum þar sem ferðamenn eru ýmist sóttir eða skildir eftir af hópferðabílum til að komast á gististaði sína í miðborginni. Eitt þeirra er við Snorrabraut, nærri gatnamótum Hverfisgötu, fyrir framan annan tveggja innganga Hverfisgötu 108.

Gísli Viðar segist hafa fengið þær upplýsingar frá borginni upphaflega að stæðið væri til bráðabirgða og tilraunaverkefni. Honum hafi því brugðið í brún þegar vinnuvélar voru nú mættar á vettvang til að leggja lokahönd á frágang við varanlega stoppistöð.

„Núna eru komnar gröfur þannig að það var allt í plati. Þetta verður varanlegt þegar þú ert farinn að grafa fyrir þessu.“

Gísli fullyrðir að íbúum hafi ekki verið kynnt áformin fyrirfram og þeir telji nú að heppilegri staður fyrir stoppistöðina væri milli Hverfis­götu 105 og lögreglustöðvarinnar.

„Þar er enginn inngangur í húsið, enginn að halla höfði sínu og ekkert ónæði. Þar er meira að segja búið að þrengja götuna og þyrfti afskaplega lítið að gera. En núna eru þeir mættir hér að grafa, korteri fyrir jól. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta.“

Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, segir að stæðin hafi aldrei verið kynnt sem bráðabirgðalausn og þau séu komin til að vera. Hafi Gísli fengið þær upplýsingar að um bráðabirgðaverkefni væri að ræða hafi þær verið á misskilningi byggðar. Þorsteinn segir sömuleiðis að íbúar í nágrenni við öll safnstæðin hafi fengið bréf frá borginni vegna áformanna. Kvartanir íbúa Hverfisgötu 108 núna séu þær fyrstu sem þaðan berist. Erfitt sé þó að bregðast við þeim nú, fjórum mánuðum eftir að stæðið var tekið í gagnið eftir langt ferli. Heilt yfir hafi lokunin og stæðin mælst vel fyrir. Haldnir hafi verið samráðsfundir með fulltrúum ferðaþjónustunnar, Íbúasamtökum miðborgar og hverfisráði miðborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×