Innlent

Trúnaður yfir annarri sáttargreiðslu RÚV

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Sáttargreiðsla Ríkisútvarpsins í síðasta mánuði er ekki einsdæmi.
Sáttargreiðsla Ríkisútvarpsins í síðasta mánuði er ekki einsdæmi. vísir/pjetur
Sú ákvörðun Ríkisútvarpsins að greiða Guðmundi Spartakusi Ómarssyni 2,5 milljónir í miskabætur til að ljúka meiðyrðamáli utan dómstóla í síðasta mánuði er ekki einsdæmi í seinni tíð. Árið 2008 greiddi Ríkisútvarpið útgerðarfélagi á Súðavík bætur vegna fréttar af yfirvofandi gjaldþroti fyrirtækisins sem reyndist röng. Ríkisútvarpið segir trúnað ríkja um efni sáttarinnar og mun ekki upplýsa hversu há sáttargreiðslan var að svo stöddu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins barst Ríkisútvarpinu kröfubréf frá lögmanni útgerðarfyrirtækisins FiskAri á Súðavík vegna fréttaflutnings svæðisútvarps Vestfjarða af meintu yfirvofandi gjaldþroti fyrirtækisins vorið 2008. Aldrei kom til stefnu í því máli líkt og í tilfelli Guðmundar Spartakusar, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins féllst RÚV á að greiða eiganda fyrirtækisins bætur gegn því að málið yrði látið niður falla. 

Fréttablaðið óskaði í upphafi mánaðarins eftir upplýsingum frá RÚV um hversu há sáttargreiðslan var en fékk þau svör frá Margréti Magnúsdóttur, skrifstofustjóra RÚV, í vikunni að þar sem kveðið hafi verið á um trúnað í sáttinni við FiskAra, telji stofnunin rétt að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál varðandi erindi fjölmiðla sem óskað hafa eftir afriti af sátt RÚV við Guðmund Spartakus.

Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi RÚV á Facebook í síðasta mánuði fyrir að fallast á að greiða Guðmundi miskabætur í stað þess að láta á málið reyna fyrir dómstólum. Spurði hann hvort RÚV væri að borga peninga til að þurfa ekki að biðjast afsökunar og hvort verið væri að kaupa sig frá því að leiðrétta frétt.

Páll var útvarpsstjóri þegar Ríkisútvarpið gerði sátt í máli vestfirska útgerðarfélagsins árið 2008. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×