Lífið

Steve Coogan fær milljónabætur fyrir ólöglegar hleranir

Kjartan Kjartansson skrifar
Coogan er einna þekktastur við hlutverk sitt sem vandræðagripurinn Alan Partridge.
Coogan er einna þekktastur við hlutverk sitt sem vandræðagripurinn Alan Partridge. Vísir/AFP
Breska gamanleikaranum Steve Coogan voru dæmdar jafnvirði milljóna króna í skaðabætur frá útgefanda Daily Mirror og Sunday Mirror í dag. Blöðin notuðu upplýsingar sem þau fengu með því að hakka sig inn í síma leikarans til að skrifa greinar um einkalíf hans.

Dómstóll staðfesti samkomulag um að útgáfufyrirtækið Mirror Group Newspapers (MGN) greiði Coogan, Siennu Miller og fleirum hundruð þúsunda punda í skaðabætur, að því er segir í frétt The Guardian.

Lögmenn útgáfufyrirtækisins viðurkenndu að Coogan og fleiri hafi orðið fyrir ólöglegum vinnubrögðum dagblaðanna og að því hefði verið leynt í fjölda ára. Báðust þeir afsökunar fyrir hönd þess.

Fleiri en fjörutíu þjóðþekktir einstaklingar á Bretlandi hafa þegar gert sáttir við MGN vegna símhlerananna. Dagblöðin hökkuðu sig inn í talhólf fólksins og komust blaðamenn þannig yfir viðkvæmar upplýsingar sem þeir notuðu svo í fréttir.

Coogan, sem er einna þekktastur fyrir að túlka persónuna Alan Partridge, sagðist telja að niðurstaðan væri uppreist æru fyrir sig. Skaðabæturnar ætlar hann að láta renna til góðgerðarmála, að því er kemur fram í frétt BBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×