Innlent

Mat á sam­fé­lags­legum á­hrifum verði lagt til grund­vallar stór­fram­kvæmdum og laga­setningu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Frá fundinum í dag
Frá fundinum í dag
Borgarafundur fór fram á Ísafirði í dag þar sem virkjanir, laxeldi og vegamál voru í brennidepli. Fundurinn stóð yfir í rúmar þrjár klukkustundir og var sýndur í beinni útsendingu hér á Vísi. Boðað var til fundarins af Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Verkalýðsfélagi Vestfirðinga ásamt sveitarfélögunum á Vestfjörðum.

Í lok fundar var sett fram ályktun um að mat á samfélagslegum áhrifum verði í framtíðinni lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu þegar það á við. Jafnframt voru settar fram fram þrjár kröfur.

Að ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit samkvæmt leið um Teigsskóg, vegna brýnna hagsmuna sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa. Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum. Einnig að Laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.

Ályktunin var samþykkt samhljóða. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sátu fyrir svörum á borgarafundinum en Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra átti ekki heimangengt á fundinn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.