Lífið

Út að borða með besta vininum

Guðný Hrönn skrifar
Það eru eflaust margir landsmenn sem hefðu áhuga á að fara út að borða með gæludýrinu sínu.
Það eru eflaust margir landsmenn sem hefðu áhuga á að fara út að borða með gæludýrinu sínu.
Tillaga Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra, um að leyfa veitingafólki að ráða sjálfu hvort gæludýr séu leyfð inni á veitingastöðum og kaffihúsum sínum, vakti áhuga margra, meðal annars Hrefnu Rósu Sætran, katta- og veitingahúsaeiganda.

„Já, þetta er alveg eitthvað sem mætti skoða, með einhverjum takmörkum,“ segir veitingahúsaeigandinn og dýravinurinn Hrefna Rósa Sætran. „Það væri alveg hægt að skoða þetta inni á kaffihúsum og kannski takmarka þetta við smærri dýr, t.d. kjölturakka.“

„Og fólk þarf að þekkja dýrið sitt vel, hvort hægt sé að fara með það á kaffihús eða veitingastaði.“

Hrefna er eigandi Grillmarkaðarins, Fiskmarkaðarins og Skúla Craft bar. Spurð út í hvort hún myndi íhuga að leyfa dýr inni á sínum stöðum segir hún: „Þegar ég sá þessa tillögu þá hugsaði ég auðvitað strax um mína staði. Mér fannst þetta fyndin tilhugsun, að það væru dýr á mínum stöðum. Ég veit ekki alveg hvort það væri við hæfi, t.d. á Grillmarkaðinum,“ segir hún.

Hrefna á sjálf tvo ketti og aðspurð hvort hún myndi vilja fara með þá á kaffihús segist hún ekki vera alveg viss. „Sko, ég myndi alveg vilja fara með þá á kaffihús, en ég veit ekki hvort þeir hefðu gaman af því. Annar þeirra myndi kannski fíla það, en hinn væri bara hræddur,“ segir hún og hlær. „Og það að vera með gæludýr er svolítið eins og að vera með barn, það er alveg vinna. Þannig að það er auðvitað meiri afslöppun að fara án gæludýra út að borða, finnst mér. Það gæti líka orðið skrautlegt ef mörg dýr væru saman komin á einum stað,“ segir hún og skellir upp úr.

Eigendur og gæludýr þeirra sem geta kannski skellt sér saman út að borða innan skamms:

Gísli Marteinn og hundurinn Tinni

Helgi Björnsson og hundurinn Kátur

Berglind Pétursdóttir og st. Bernardhundurinn Hófí

Þorsteinn Guðmundsson og labradorinn Bangsi

Edda Sif Pálsdóttir og hundurinn Fróði

Ragnheiður Gröndal og kötturinn Bangsi

Sóley Tómasdóttir og kötturinn Lína

Logi Bergmann og guli kisinn hans






Fleiri fréttir

Sjá meira


×