Lífið

Besta bragðið úr Breiðholti

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Matgæðingurinn Helen Jóanna Halldórsdóttir gleður bæði munn og maga, en hún stendur vaktina með stæl í Gamla kaffihúsinu í Fellahverfinu.
Matgæðingurinn Helen Jóanna Halldórsdóttir gleður bæði munn og maga, en hún stendur vaktina með stæl í Gamla kaffihúsinu í Fellahverfinu. MYND/ERNIR
Til er kjúklingasalat, svo gott að það gerir allt miklu betra og bjartara. Að minnsta kosti fyrir munn og maga sem hoppa og fyllast af græðgislegri kæti. Hér er svipt af því hulunni.

„Sagan af kjúklingasalatinu hófst, eins og svo oft áður, með því að ég vildi nýta góða afganga. Ég sat uppi með kjúklingakjöt sem ég ákvað að sulla einhverju saman við og það sló í gegn,“ segir Helen Jóanna Halldórsdóttir, sem margir hafa mikla matarást á og eldar allt og bakar í Gamla kaffihúsinu í Fellahverfi Efra Breiðholts.

„Þetta salat á alltaf við og passar jafnt í útileguna, saumaklúbbinn, lautarferðina eða heima á eldhúsborði. Sósan er köld og fersk og gefur kjúklingi, jafnt og sjávarréttum, unaðslegt bragð. Með kjúklingi er salatið matarmikið og því gefur það góða saðningu,“ segir Helen sem er einkar leikin í að galdra fram lostætar krásir úr því sem til er í ísskápnum. „Kjúklingasalatið býður upp á endalausar útfærslur. Til dæmis að skipta út kjúklingi fyrir rækjur og léttsoðna hörpuskel og saxa með rauðlauk og ananas, sem er gómsætt. Þá geri ég stundum bara sósuna, sker út í hana sveppi og læt ofan á brauð með osti yfir í ofninn, eða bý til brauðrétt úr salatinu, með því að setja brauðmola eða hrísgrjón í botninn á eldföstu móti og ost yfir. Það svíkur engan.“

Helen er nýlega komin úr fríi til Marokkó þaðan sem hún tók með sér ýmis leynivopn sem hún er strax byrjuð að nota á Gamla kaffihúsinu. Í ofninum bakast ilmandi saffranbrauð og á hellunni sýður súpa með marokkósku karríi. Það passar vel við alþjóðlegt andrúmsloft heimsborgarahverfisins Efra-Breiðholts.

„Breiðhyltingum þótti kærkomið að fá loks gott og lokkandi kaffihús í hverfið sitt, en hingað kemur fólk hvaðanæva úr borginni og úr öllum landshornum. Maturinn er gómsætur, vel útilátinn og enginn fer héðan svangur frá borði,“ segir Helen og það vita þeir sem þekkja til. Lasanjað er til dæmis svo vinsælt að kaffihúsið sá sér ekki annað fært en að bjóða upp á lasanja Helenar í hádegi hvers virks dags, með súpu og heimabökuðu brauði. Þá er hægt að borða nautasteikur og hrossakjötssteikur á hlægilegu verði, svo fátt af lostæti hússins sé upptalið.

„Á sunnudögum svigna borðin í Gamla kaffihúsinu af gamaldags rjómatertum, marengstertum, brauðtertum og brauðréttum, og minnir einna helst á veisluborð í fermingarveislum hér áður fyrr. Allt eins og hver getur í sig látið og kaffi með á sléttan tvö þúsund kall og afsláttur fyrir börnin. Þeir sem koma einu sinni til að njóta lífs og dekurs hér í Efra-Breiðholti koma aftur og aftur. Fjölskyldur, jafnt sem saumaklúbbar, vinahópar og börn og unglingar í skólum hverfisins sem elska að fá sér hér kakó og kökur,“ segir Helen kát í hverfinu misskilda en góða.



Kjúklingasalat Helenar fögru

350-400 g majónes

1 dós ananas í bitum

1 rauðlaukur, smátt saxaður

1 rauð paprika

1 dós maísbaunir

Kjúklingur, rifinn

Karrí

Majónesi, karríi og ananassafa hrært saman. Öðru hráefni hrært út í. Gott með ristuðu brauði og salati.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×