Myndin er hluti af nýrri auglýsingaherferð Galvan á samfélagsmiðlum. Björt Ólafsdóttir og Sóla Káradóttir, listrænn stjórnandi vörumerkisins, eru vinkonur til margra ára eins og kemur fram í færslu Galvan með myndinni á Instagram síðasta föstudag.
Þar er bent á að Björt sé ráðherra og að hún standi inni í sal Alþingis. Fleiri vinkonur Sólu hafa að undanförnu einnig setið fyrir á myndum klæddar fatnaði breska merkisins, myndaðar víðsvegar um Ísland.

Helgi segir að samkvæmt reglum Alþingis séu myndatökur í einkaþágu óheimilar í þingsalnum hvort sem sé á þingfundi eða utan. Aftur á móti sé heimilt að taka ljósmyndir inn í salinn, úr hliðarsölum eða gangi, þar sem ljósmyndarar standa fyrir utan salinn sjálfan.
Myndatökur í tengslum við blaða- eða sjónvarpsviðtöl, til að taka auglýsingamyndir og yfirleitt annars inni í sjálfum þingsalnum séu sem sagt óheimilar. Myndatökur séu að öðru leyti heimilar í þinghúsinu og Skála Alþingis, svo og á skrifstofum þingmanna.
Þegar blaðamaður náði tali af Björt um miðjan dag í gær benti hún á að myndavélinni hefði verið beint inn í þingsal og að hún hefði því ekki brotið neinar reglur Alþingis.
Þegar henni var svo kynnt að til stæði að fjalla um myndatökuna vildi hún ekki tjá sig um málið.