Hann segist ekki vita hversu margir gestir borguðu gjald á þessum tíma, en árlega koma 600 til 800 þúsund gestir að Seljalandsfossi.
„Það var ekkert annað í boði. Við höfum sótt um í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða síðustu tvö ár og fengum neitun í bæði skiptin til að gera bílastæði og koma upp salernisaðstöðu. Rangárþing eystra hefur séð um að reka þetta svæði algjörlega og það er ekki réttlætanlegt að svona fámennt sveitarfélag standi undir svona miklum útgjöldum,“ segir Kristján.

Gjöldin hafa skilað milljónum í kassann. En á Þingvöllum skiluðu bílastæðagjöld um 70 milljónum króna á hálfsárstímabili í fyrra. Þar er rukkað um fimm hundruð krónur á hvern fólksbíl, en 3.000 fyrir rútur.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur samþykkt að hefja gjaldtöku á bílastæðum. Hún verður hafin í Skaftafelli og við Dettifoss. Síðsumars hefst gjaldtaka þjónustugjalds í Skaftafelli sem mun nema 600 krónum fyrir fólksbifreið í sólarhring. Gjaldið verður hærra fyrir rútur.
Fleiri staðir hafa skoðað að gera það en ekki fengið leyfi eða verið bannað að rukka inn eftir að gjaldtaka hófst, til að mynda Leirhnjúkur í Mývatnssveit, Geysir og Hraunfossar.
Annars staðar er gjaldtaka til athugunar, til dæmis á bílastæðum hjá Sólheimajökli. Málið er í vinnslu og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort eða hvenær af henni verður. Einnig er unnið að gjaldtöku vegna bílastæða við Jökulsárlón.
Svo virðist sem mest sé um gjaldtöku þessa stundina á Suðurlandi, en einnig eru nokkur svæði á Vesturlandi. Lítið sem ekkert er um gjaldtökur á Austurlandi eftir því sem Fréttablaðið kemst næst. Hundrað krónu klósettgjald er við Egilsstaðastofu, en ekki virðist vera gjaldtaka við náttúruperlur á svæðinu.