Innlent

Grátur og gnístran tanna vegna glerhýsis

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þau Stefán, Edda, Gunnar og Óðinn eru ekki par sátt við nýja glerhýsið á Laugavegi.
Þau Stefán, Edda, Gunnar og Óðinn eru ekki par sátt við nýja glerhýsið á Laugavegi. Vísir

Óhætt er að segja að nýtt glerhýsi sem verið er að leggja lokahönd á við Laugaveg 4-6 í miðborg Reykjavíkur hafi vakið mikil viðbrögð.

Hýsið stendur á hlut lóðarinnar sem borgin keypti ásamt fasteignum fyrir 580 milljónir árið 2008. Kaupin voru gerð í tengslum við samstarfsyfirlýsingu Ólafs F. Magnússonar og sjálfstæðismanna í borgarstjórn þegar myndaður var nýr meirihluti í borgarstjórn og Ólafur F. varð borgarstjóri. Hugmyndin var að viðhalda 19. aldar götumynd Laugavegar.

Sitt sýnist hverjum um hvernig tekist hefur til við uppbyggingu á reitnum.

Formaður Íbúasamtaka Miðbæjar, Benóný Ægisson, segir glerrýmið vera skemmdarverk sem blasir nú við í „allri sinni viðurstyggð“ eftir að girðing umhverfis athafnasvæðið var fjarlægð á dögunum. „Væri hægt að fá girðinguna aftur til að hylja þennan ljótleika og smekkleysu?“ spyr hann á Facebooksíðu sinni og það stendur ekki á svörum.

Óðinn Jónsson, útvarpsmaður hjá Ríkisútvarpinu, tekur í sama streng og Benóný og segir hýsið vera „forklúrað og afkáralegt.“ Þar með er tónninn gefinn og eru jákvæðar athugasemdir við færslu Benónýs teljandi á fingrum annarrar handar.

Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson efast um að glerbyggingin uppfylli það sem var lagt upp með, að viðhalda 19. aldar götumynd - en „ég var náttúrulega ekki uppi á 19. öldinni,“ segir Gunnar hæðinn.

Stórleikarnir Edda Björg Eyjólfsdóttir og Stefán Karl Stefánsson eru heldur ekki hrifin. „Guð minn góður hvað þetta er glatað. Fullkomlega smekklaust,“ segir Edda. „Hörmung,“ er dómur Stefáns. Egill Helgason spyr sig að sama skapi á bloggsíðu sinni einfaldrar spurningar: „Er þetta fallegt?“

Það taka þó ekki allir jafn djúpt í árinni og vinir Miðbæjarformannsins. Í frétt á vef Ríkisútvarpsins voru skiptari skoðanir um málið

Þar segir einnig að ekki sé ljóst hvaða starfsemi verði í húsinu. Þau séu í eigu Laugastígs ehf. og hafa verið auglýst til sölu og leigu.


Tengdar fréttir

Samþykkja sölu húsa að Laugavegi 4 og 6

Borgarráð hefur samþykkt að selja fasteignirnar við Laugaveg 4 og 6 og Skólavörðustíg 1 a. Ákvörðun um þetta var samþykkt í gær með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina greiddu atkvæði á móti.

Yfir hálfur milljarður tapast vegna Laugavegs 4 og 6

Tap Reykjavíkurborgar vegna uppkaupa húsanna við Laugaveg 4 og 6 fyrir ári síðan verður meira en 500 milljónir króna. Kostnaðurinn við uppkaupin er orðinn hátt í 700 milljónir en þetta kemur fram í bókun Samfylkingarinnar í borgarráði í dag.

Sátt um 19. aldar götumynd á Laugavegi

Afstaða meirihlutans í Reykjavík til skipulags og uppbyggingar á reitnum Laugavegi 4 til 6 hefur ekkert breyst. Á síðasta sumri hafi náðst góð sátt um skipulag á reitnum í anda þeirrar götumyndar sem mikilvægt sé að standa vörð um á þessum stað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.