Lífið

Unnu keppni með einfaldri markatöng

Gunnþóra Gunnardóttir skrifar
Indriði heldur á golóttu lambi og Óskar bregður tönginni á vinstra eyra þess en engin plata var í henni í þetta sinn svo ekki varð úr mark.
Indriði heldur á golóttu lambi og Óskar bregður tönginni á vinstra eyra þess en engin plata var í henni í þetta sinn svo ekki varð úr mark. Mynd/Páll Friðriksson/Feykir
Óskar Aron Stefánsson og Indriði Ægir Þórarinsson eru 13 ára Skagfirðingar og tilheyra báðir Lýtingsstaðahreppi.

Óskar á heima í Álfheimum og Indriði á Stórhól. Þeir fengu 1. verðlaun í nýsköpunarkeppni grunnskólanna fyrir að finna upp einfalda markatöng til að marka lömb með. Í þeirri töng er hægt að skipta um plötur eftir því hvaða fjármark á að setja á lambið. Þeir útskýra það nánar.

Óskar: „Fjármörk eru mörg og mismunandi og heita öll sínum nöfnum, til dæmis hvatt og biti. Sum mörk eru samsett úr nokkrum mörkum.

Bóndinn þarf því að beita nokkrum hnífs- eða tangarbrögðum við að marka hvert lamb. Einfalda markatöngin á að einfalda málið þannig að aðeins eitt tangarbragð þurfi til að marka hvort eyra. Bóndinn gæti þá valið hvort hann mundi vilja eiga tvær tangir fyrir hvort eyra.“

Indriði: „Annars mun verða hægt að skipta um markaplöturnar því á flestum bæjum eru notuð fleiri en eitt mark.“

Útbjugguð þið gripina eða á hvaða formi skiluðuð þið af ykkur hugmyndunum?

Óskar: „Við gerðum líkan af tönginni og plakat til að skila í keppnina.“

Hvað fengu þið svo í verðlaun?

Indriði: „Verðlaunin voru Lenovo Yoga fartölva og tveir dagar í Fab Lab smiðju í Nýsköpunarmiðstöð Íslands í Vestmannaeyjum, ferð með Herjólfi, kennsla, efni, matur og gisting.“

Hafið þið tekið þátt í svipuðum keppnum áður?

Óskar: „Já, ég hef tekið þátt í nýsköpunarkeppninni þrisvar áður.“

Indriði: „Og ég tvisvar.“

Spáið þið mikið í að búa til eitthvað nýtt?

Óskar: „Já, markmið okkar er að halda áfram að finna upp eitthvað nýtt.“

Indriði: „Við viljum gera öðrum lífið auðveldara.“

Þykir ykkur gaman að eiga heima í sveit?

Óskar: „Já, mér finnst mjög gaman að eiga heima á sveitabæ.“

Indriði: „Við ætlum örugglega að halda áfram að búa í sveit í framtíðinni.“

Eruð þið komnir með einhver framtíðaráform?

Indriði: „Við ætlum örugglega að mennta okkur eitthvað.“

Óskar: „En vitum ekki ennþá hvert hugurinn stefnir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×