Innlent

Neytendavakning hjá þjóðinni

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að verslunarrisinn Costco opnaði hér á landi á dögunum. Tæplega fimmtungur þjóðarinnar tilheyrir nú til að mynda Facebook-hópnum Keypt í Costco - myndir og verð þar sem fólk deilir myndum, reiknar út kílóverð og gerir verðsamanburð.

Þá hefur snjallsímaforritið Neytandinn, sem safnar kassakvittunum til að búa til gagnagrunn um verðlag á Íslandi, tekuð vinsældastökk og er nú vinsælasta appið á Íslandi, bæði í Appstore og Playstore. Forritið hefur verið aðgengilegt í tvö ár en hefur aldrei notið viðlíka vinsælda.

„Við erum með um sextán þúsund notendur frá upphafi og þar af hafa þrjú þúsund og fimm hundruð skráð sig á síðustu fjórum dögum,“ segir Hugi Þórðarson, stofnandi Neytandans. 

Tengir þú þetta við komu Costco til landsins?

„Já. Það virðist óneitanlega vera líklegast að það tengist því. Núna er að ganga yfir heilmikil neytendabylgja. Við erum að fá núna um tíu þúsund manns inn á vefinn á dag sem eru að skoða verð og bera saman. Við höfum ekki séð svona stóra bylgju áður.“

Hugi bendir á einfaldast væri þó að upplýsingar um verð bærust rafrænt, beint frá verslununum sjálfum. 

„Við höfum vakið máls á þessu við ýmis tækifæri við verslunina en fengið heldur dræmar undirtektir. En núna í ljósi þess að Íslendingar eru að verða mjög virkir neytendur þá er þarna kannski komið tækifæri fyrir íslenskar verslanir að skapa sér sérstöðu með því að deila strimlum rafrænt til sinna viðskiptavina,“ segir Hugi.

Það sé jákvæð þróun að almenningur hugsi meira út í vöruverð.

„Þessi hugsunarháttur hefur ekki verið sterkur í okkur Íslendingum hingað til en ég vona að þetta hafi kveikt eitthvað sem er komið til að vera,“ segir Hugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×