Lífið

Sjóðheitar sælkerakrásir frá Gana

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Ganabúinn Patience A. Karlsson er eigandi verslunarinnar Afro Zone í Hólagarði í Efra-Breiðholti. Hún varð ástfangin af Íslendingi sem var við túnfiskveiðar í Gana fyrir fjórtán árum. Patience flytur inn brakandi ferska ávexti og grænmeti, ásamt freistandi og framandi hráefni í eldamennskuna frá Afríku.
Ganabúinn Patience A. Karlsson er eigandi verslunarinnar Afro Zone í Hólagarði í Efra-Breiðholti. Hún varð ástfangin af Íslendingi sem var við túnfiskveiðar í Gana fyrir fjórtán árum. Patience flytur inn brakandi ferska ávexti og grænmeti, ásamt freistandi og framandi hráefni í eldamennskuna frá Afríku. MYND/ERNIR
Efra-Breiðholt er heillandi suðupottur skemmtilegrar heimshornamenningar og þar er leynist afríska sælkerabúðin AfroZone. Eigandinn er Ganabúinn Patience A. Karlsson sem hér reiðir fram vinsælasta helgarmatinn í Gana fyrir landsmenn sem vilja spreyta sig á einhverju nýju í eldhúsinu.



Ganabúar í Vestur-Afríku eru sólgnir í gómsætt Red red. Nafnið, á íslensku Rautt rautt, er dregið af lit réttarins sem er rauð kássa með steiktum mjölbanönum sem meðlæti. Patience er hrifin af bragðsterkum mat og notar því ferska tómata, hvítlauk, engiferrót, lauka, tómatpuré og nautakjöt í sína útgáfu en það gerir lit og bragð enn ríkulegra. Í Red red eru oftast notaðar augnbaunir (e. black-eyed peas) eða aðrar kúabaunir sem finna má í AfroZone. Útkoman er sannkölluð veisla fyrir bragðlaukana.

Red red (fyrir 4)

Stórir vel þroskaðir mjölbananar

500 g augnbaunir

Salt

Stór laukur

Ferskur hvítlaukur

Fersk engiferrót

Kjöt eða fiskur að eigin vali

1 dós (70g) Derica tómatpuré

200 ml rauð olía eða önnur grænmetisolía

Chilipipar að vild

Magi fisk- eða kjötkraftur

Gari (búið til úr rótarhnýði cassava-jurtarinnar)

ATH! Mjölbananar, augnbaunir og aðrar kúabaunir, Derica tómat­puré, rauð grænmetisolía og gari fást í AfroZone, Lóuhólum 2-6 í Efra Breiðholti.

Hreinsið baunir og látið í pott með vatni sem nær minnst þumlung yfir. Sjóðið í klukkustund eða þar til mjúkar. Skerið lauk og annað hrámeti. Blandið hluta af því við kjötið ásamt salti og krafti. Látið sjóða í 2 mínútur. Hitið næst olíu á pönnu og snöggsteikið soðið kjötið í um 2 mínútur. Fjarlægið nú kjötið, kælið olíuna aðeins og steikið upp úr henni lauk, hvítlauk og engifer í um hálfa mínútu. Setjið tómatpuré út á pönnuna og hrærið þar til verður rautt, bætið þá við ferskum tómötum. Bætið við krafti og kjöti og eldið á miðlungshita til að byrja með en síðan er látið malla á lágum hita í 5-10 mínútur. Bætið að síðustu soðnum baunum saman við, saltið og látið malla á lágum hita á meðan bananar eru undirbúnir.

Steiktir mjölbananar



Fjarlægið bananahýðið, snyrtið bananana og skerið í litla bita. Saltið lítillega. Hellið olíu á pönnu, um hálfan þumlung á dýpt, og steikið bananabitana á miðlungshita. Hrærið og veltið til svo bitarnir brúnist vel. Takið þá af pönnunni og þerrið á eldhúspappír eða grind. Berið fram með kássunni. Skreytið með gari líkt og gert er með parmesanost á pitsu eða notið sem meðlæti sem vætt er í vatni.

ATH! Sleppa má olíu, skera bananana smærra og sjóða í saltvatni í 5-10 mínútur eða rista í ofni í 5-10 mínútur á 200°C. Einnig er Red red gómsætt sem grænmetisréttur með því að sleppa kjöti eða fiski.





Red red er vinsælasti aðalréttur Ganabúa og sannkallað gómsæti sem hittir í mark á kósíkvöldi.
Karamellur úr niðursoðinni mjólk

Ganamenn eru lítt gefnir fyrir sælgæti og líta á það sem verðlaun fyrir krakka. Í Gana er flestur matur heimaunninn og á það líka við um sætindi. Patience telur það vera vegna þess að ódýrara er að kaupa dós af niðursoðinni mjólk til að gera heimagerðar karamellur en að kaupa þær innfluttar. Karamellurnar innihaldi minni sykur en bragðist jafnvel enn betur.

„Ungir krakkar taka gjarnan upp á því að kaupa niðursoðna mjólk fyrir vasapeninginn sinn og búa til karamellur sem þeir selja svo skólasystkinum sínum undir borðið. En þótt krakkar séu sannarlega sólgnir í karamellurnar er pabbi minn vitlaus í þær líka. Þær eru dásamlegt laugardagsnammi,“ segir Patience.

1 dós niðursoðin mjólk

1 msk. smjör

Panna og trésleif

Bræðið smjör á miðlungsheitri pönnu. Hellið niðursoðnu mjólkinni yfir bráðið smjörið og hrærið í stöðugt í 10-15 mínútur. Takið af hitanum þegar karamellan er orðin brún og hægt að snúa við kaldri skeið án þess að karamellan detti af. Mótið að vild og njótið! Berið fram með kaffi eða kaldri mjólk.

 

 

Faðir Patience er sólginn í heimalagaðar karamellur úr niðursoðinni mjólk enda einstakt hnossgæti.
Jarðhnetusúpa (fyrir 4)

Þessi dýrindis súpa er ein af töfrandi sælkeramat Gana og vinsæll helgarmatur. Hún er gjarnan borin fram með fufu (fæst í AfroZone) og omutuo (hrísgrjónabollum).

1 dós Creamy Jumbo hnetusmjör

1 dós (70 g) tómatpuré

4 stórir og þroskaðir tómatar

2 stórir skalottlaukar

4 stórar gulrætur

Svolítið af brokkólíi (eða öðru grænmeti að eigin vali)

Hvítlaukur (eins mikið og vill)

Fersk engiferrót (minna en meira ef súpan á ekki að verða of sterk)

Salt og pipar

2 bollar sjóðandi vatn

Chilipipar

4-8 sveppir

Fiskur eða kjöt að eigin smekk

Magi/Jumbo fisk-, kjöt, eða grænmetiskraftur

ATH! Creamy Jumbo hnetusmjör, 70 g tómatpuré, stórir skalottlaukar og magi-kraftur fæst í AfroZone.

Mýkið tómatana í sjóðandi vatni, takið af þeim hýðið og maukið aldinkjötið. Setjið Creamy Jumbo hnetusmjör í pott, tvo bolla af vatni, helming af tómatpuréinu og nýlagað tómatmaukið. Látið malla á miðlungshita og hrærið í þar til hráefnið er orðið brúnt með olíu á yfirborðinu (í 15-25 mínútur.) Skerið kjúklingakjötið í bita og gufusjóðið eða léttsteikið í potti í 5 mínútur með salti og stórum kraftkubbi. Takið hýðið af engiferrót, skalottlauk og hvítlauk og bætið saman við kjúklinginn. Hrærið í hráefninu til að kjötið taki í sig bragð. Setjið nú hnetusmjörsblönduna yfir kjúklinginn og bætið við 2 bollum af vatni til viðbótar ef þynna þarf súpuna. Látið sjóða í 20-30 mínútur og hrærið í af og til svo festist ekki við botninn. Bætið við gulrótum og brokkólíi á seinni mínútum suðunnar. Skreytið með fersku spínati eða steinselju. Berið fram með soðnum hrísgrjónum, hrísgrjónabollum, fufu eða banku frá Gana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×