Innlent

Af hverju var hann ekki með límmiða?

Jakob Bjarnar skrifar
Fólk skiptist mjög í tvö horn eftir að í ljós kom að einhver hafði laumað ólyfjan í glas Róberts Spencers. Ýmist er talað um morðtilraun eða fólk hefur þetta í flimtingum.
Fólk skiptist mjög í tvö horn eftir að í ljós kom að einhver hafði laumað ólyfjan í glas Róberts Spencers. Ýmist er talað um morðtilraun eða fólk hefur þetta í flimtingum.
Fregnir þess efnis að Robert Spencer héldi því fram að eitrað hafi verið fyrir sér í Reykjavík í tengslum við fyrirlestrahald sitt á Grand Hótel, hafa vakið mikla og verðskuldaða athygli. DV fyllti inn í myndina með því að birta læknaskýrslu þar sem fram kemur að í blóði Spencers hefði fundist MDMA, sem er virka efnið í extasí eða E-i, auk amfetamíns sem oft er blandað saman við e-töflur.

Í læknaskýrslunni segir að Róbert Spencer hafi öll einkenni þess að vera gripinn ofsahræðslu eða „Panic attack“. Ekki séu merki um alvarleg eituráhrif. Einhver hefur sem sagt laumað e-töflu í glas Spencers. DV vitnar til heimasíðu SÁÁ hvar áhrifunum er lýst:

„Í vímunni lýsir fólk því að það finni fyrir aukinni samkennd, samúð og skilningi og aukinni þörf fyrir að hreyfa sig og dansa. Hjá næmum einstaklingum koma fram vægar ofskynjanir, hjartsláttur og höfuðverkur.“

Vildi einhver sjá Spencer dansa? Hvað er að gerast? Fréttastofa ræddi við Spencer sem segir að lögreglan sé komin með nafn og númer á byrlarann og næst á dagskrá sé að kalla þann til yfirheyrslu.

Fjandsamlegir fjölmiðlar

Meðan stuðningsmenn hins umdeilda Spencers eru æfir og hafa þetta til marks um ofstæki vinstri manna leyfa aðrir sér að gantast með atburðinn.

„Íslenskir fjölmiðlar eru í raun að höggva í sama knérunn og espa upp brjálæðinga sem gætu leynst hér á landi meðal múslíma eins og víða annars staðar þó að mikill meiri hluti múslíma myndi aldrei vinna slík verk,“ skrifaði Valdimar Jóhannesson á bloggsíðu sína.

Valdimar Jóhannesson segir fjölmiðla espa upp brjálæðingana. Og nú virðist komin staðfesting á því.
Hann er einn þeirra sem stóð að komu Spencers undir merkjum Vakurs og var reyndar fundarstjóri á téðum fundi, í tilefni af komu Spencers. Hann vildi meina að fjölmiðlar, hin íslenska lygapressa, séu fjandsamlegir viðhorfum sínum og Spencers.

Miður sín eftir morðtilraun

Stuðningsmenn Spencers vilja nú halda því fram að nú sé nákvæmlega þetta komið á daginn. Að um morðtilræði sé að ræða.

Guðlaugur Ævar Hilmarsson segir svo frá á Facebook að hann hafi hitt Róbert Spenser og Cristinu Willjams ásamt góðum félögum um helgina áður en þau fóru burt af landinu.

Hann var mjög niðurdreginn og slappur eftir þessa morðtilraun. Sagði að oft hefði hann orðið fyrir aðkasti,það hafi verið hrópað.kastað flöskum, og gerður aðsúgur að honum. En þetta væri það hræðilegasta sem komið hefði fyrir.

Fasistarnir sýna sitt sanna eðli

Og Margréti Friðriksdóttur, kunn fyrir baráttu sína fyrir kristni, er brugðið en hún segir í Facebookhópi sem heitir Stjórnmálaspjallið:

„Það er mjög óhugnalegt að það sé til fólk hér í samfélaginu sem beitir svona skelfilegum hatursglæpum, ég vona að sá sem er sekur um þennan hrylling fái viðeigandi dóm.“

Vilhjálmur Eyþórsson er annar sem skefur ekki utan af því en hann hefur varað mjög við uppgangi múhameðstrúarmanna, en hann er einn þeirra sem hefur verið kærður fyrir hatursorðræðu. Hann segir:

Margréti Friðriksdóttur vonar að þeim sem laumaði ólyfjan í glas Spencers verði refsað grimmilega.Vísir
„Það er nú staðfest, að íslenskir vinir kvennakúgara og hommamorðingja múslima eitruðu fyrir mann sem var að segja sannleikann um vini þeirra, ódæðismennina. Fasistarnir hafa hér sýnt sitt sanna eðli.

Finnst einhverjum öðrum en mér merkilegt, að þetta sama lið fær vart vatni haldið fyrir aðdáun á feminisma og hommabaráttu?“

Óumbeðnar athugasemdir

Af nægu er að taka þegar dæmi um bálreiða stuðningsmenn Róbert Spencers er að ræða. En, svo eru það hinir sem vilja efast um alvarleika hins meinta banatilræðis. Og jafnvel hafa það í flimtingum:

„Fékk Robert Spencer sér hákarl og Brennivín á hótelinu og reynir svo að gera úr því banatilræði?“ spyr Þórarinn Þórarinsson blaðamaður, en hann hefur löngum gert þjóðhollum Íslendingum gramt í geði með óumbeðnum athugasemdum sínum.

Ragnar Pétursson talar um kvíðakast og aðsóknarkennd í tengslum við byrlun í glas Spencers.
Þorgerður María Halldórsdóttir er svo önnur sem skýtur inn háðskri setningu, á vegg Ágúst Borgþórs Sverrissonar blaðamanns: „Af hverju var hann ekki með límmiða?“ spyr Þorgerður María og tengir þetta við umræðu sem geisaði í gær vegna átaks Þórunnar Antoníu Magnúsdóttur gegn nauðgurum sem vilja byrla svefnlyfjum í glös fórnarlamba sinna.

Kvíðakast og þorramatur

Ragnar Þór Pétursson kennari, sem einmitt skrifaði skilmerkilega grein um fund Spencers, spyr: „Hver er stuðullinn á Bet365 að maðurinn hafi fengið kvíðakast ofan í aðsóknarkenndina?“

Og síðasta dæmið af þessu tagi er frá öðrum háðskum blaðamanni, nefnilega Andrési Magnússyni, sem vill einnig kenna íslenskri matargerðarlist um: „Þeir hafa ákveðið að vera þjóðlegir við hann og gefið honum þorramat.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×