Innlent

Vespa Brynjars Karls komin í leitirnar: „Þessu er hvergi nærri lokið“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Brynjar Karl vakti mikla athygli árið 2014, þá ellefu ára gamall, þegar hann hóf byggingu á magnaðri lego-eftirlíkingu af skipinu Titanic.
Brynjar Karl vakti mikla athygli árið 2014, þá ellefu ára gamall, þegar hann hóf byggingu á magnaðri lego-eftirlíkingu af skipinu Titanic. vísir/valli
Brynjar Karl Birgisson, fjórtán ára nemandi við Langholtsskóla, hefur endurheimt skellinöðru sem stolið var af honum síðastliðinn miðvikudag.

Hjólið var fermingargjöf en Brynjar fermdist nýverið og var í skýjunum með gjöfina. Stuldurinn var því mikið áfall, sérstaklega vegna þess að ræningjarnir voru skólafélagar Brynjars og hann neyddist til að mæta þeim á göngunum.

Faðir Brynjars, Birgir Tryggvason, hélt úti ítarlegri dagbók um ferlið í stöðuuppfærslum á Facebook, allt frá hvarfi vespunnar þann 19. apríl og þangað til hún fannst í gær. Hann sagði þar frá viðbrögðum sonar síns, sem er einhverfur, og hvernig þjófnaðurinn reyndist honum erfiður. Færslurnar vöktu mikla athygli en þeirri fyrstu, í hverri tilkynnt er um stuldinn, hefur verið deilt yfir þrettánhundruð sinnum.

Engin úrræði í boði fyrir þjófana

Í færslu á sinni eigin Facebook-síðu í gær sagði Brynjar Karl að fimm strákar úr skólanum sínum hefðu náðst á öryggismyndavél við verknaðinn. „Ég þurfti að mæta tveimur þeirra í skólanum í dag og þykjast ekki vita neitt vegna þess að það hefur ekki náðst að yfirheyra þá,“ skrifaði hann. Brynjar sagðist einnig vonast til þess að vespuþjófarnir hlytu þá hjálp sem þeir þyrftu greinilega á að halda.

Þjófarnir hafa síðan verið yfirheyrðir og færir Birgir, faðir Brynjars, lögreglunni og foreldrum drengjanna sem tóku vespuna kærar þakkir fyrir hjálpina. Hann segir fjölskyldu sína úrvinda eftir þrekraunina en að það sem skipti máli sé að Brynjar sé ánægður.

„Brynjar hefur fengið sitt og er hamingjusamur, en þessir drengir þurfa líka að fá sitt, hvernig og hvað get ég bara ekki sagt til um því þau úrræði sem eru í boði eru lítil sem engin,“ sagði Birgir í Facebook-færslu í gær.

„Ég er enn bara svolítið reiður pabbi“

Birgir vildi ekki tjá sig neitt að ráði um málið í samtali við Vísi í dag.

„Þetta er svo erfitt og sorglegt á margan hátt. Við hérna megin erum eiginlega bara sigruð. Þú mátt alveg deila allri hamingjunni en ég er ekki tilbúinn að ræða aðstæður og það sem mér finnst um málið,“ tjáði Birgir blaðamanni Vísis.

„Ég er enn bara svolítið reiður pabbi. Þetta er mjög snúið,“ bætti hann við. „Þessu er hvergi nærri lokið.“

Brynjar Karl vakti mikla athygli árið 2014, þá ellefu ára gamall, þegar hann hóf byggingu á magnaðri lego-eftirlíkingu af skipinu Titanic, sem nú er staðsett á Titanic-safninu í Branson í Bandaríkjunum. Þá hefur hann einnig vakið athygli á málefnum einhverfra, t.d. í TedxKids-fyrirlestri á síðasta ári.

Hér að neðan má sjá síðustu færslu Birgis um málið:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×