Innlent

Telja stefnu borgarinnar skaða samkeppni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Samkeppniseftirlitið telur að stefna Reykjavíkurborgar um fækkun bensínstöðva vinni gegn eigin markmiði.
Samkeppniseftirlitið telur að stefna Reykjavíkurborgar um fækkun bensínstöðva vinni gegn eigin markmiði. vísir/valli
„Við ætlum að fá viðræður við Samkeppniseftirlitið og fá betri útlistun á því hvað það leggur til að við gerum með það að samræma annars vegar umhverfissjónarmið og hins vegar samkeppnissjónarmið,“ segir Björn Blöndal, formaður borgarráðs, um viðbrögð borgarinnar við áliti Samkeppniseftirlitsins. Björn segir Samkeppniseftirlitið hafa boðið upp á þessar viðræður í bréfi til borgarinnar og borgarráð þiggi það.

Björn Blöndal, formaður borgarráðsvísir/pjetur
Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu, sem unnið er í tengslum við markaðsrannsókn á íslenska eldsneytismarkaðnum, að stefna Reykjavíkurborgar um að fækka bensínstöðvum í Reykjavík raski samkeppni á eldsneytismarkaðnum og sé almenningi til tjóns. Samkeppniseftirlitið vill því að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir aðgerðum sem miða að því að draga úr þeim samkeppnishindrunum sem leiða af þessari stefnu.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Festi, sem rekur verslanir Krónunnar, vildi lóð undir eldsneyti á Fiskislóð 15-21. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar tók fyrirspurnina fyrir á fundi sínum hinn 17. ágúst síðastliðinn. Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs tók neikvætt í fyrirspurnina og bókaði meðal annars að hún samrýmdist hvorki stefnu borgarinnar um fækkun bensínstöðva né nýsamþykktri loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar. Þar er stefnt að því að dælur fyrir jarðefnaeldsneyti innan borgarmarkanna verði 50 prósent færri árið 2030 og verði að mestu horfnar árið 2040.

Samkeppniseftirlitið telur að stefna og framkvæmd Reykjavíkurborgar sé skýrt dæmi um skaðsemi þess að huga ekki að áhrifum skipulags og lóðaúthlutunar á samkeppni. Markmið um betri nýtingu lóða og almenna fækkun eldsneytisstöðva og umhverfismál eigi fullan rétt á sér. „Hins vegar eru sterkar vísbendingar um að þær leiðir sem borgin hefur valið að þessu markmiði hafi þveröfug áhrif,“ segir í álitinu. Þetta felist meðal annars í því að nýir eða smærri aðilar hafi engar eða mjög fáar eldsneytisstöðvar á Reykjavíkursvæðinu í upphafi starfsemi sinnar og séu þannig ekki í aðstöðu til þess að leggja niður bensínstöð á móti nýrri mögulegri lóð.

„Sem slík skapar stefna borgarinnar því aðgangshindrun að markaðnum. Þar með minnka líkur á virkara samkeppnislegu aðhaldi gagnvart starfandi félögum. Það leiðir til þess að minni hvatar eru til þess að hagræða á markaðnum. Samhliða er stefna borgarinnar til þess fallin að skapa hvata eða aðstæður fyrir núverandi stærri keppinauta á svæðinu til að halda að sér höndum þegar kemur að því að loka bensínstöðvum vegna þess að með því eykst hættan á því að nýr eða annar keppinautur opni nýja stöð á viðkomandi svæði. Af þessum sökum getur stefna borgarinnar beinlínis unnið gegn fækkun eldsneytisstöðva, þvert á markmið hennar,“ segir í áliti Samkeppniseftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×