Innlent

„Þetta er tekið bráðalvarlega“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Tilkynningum um mál, þar sem læknum yfirsést alvarleg veikindi barna, hefur fjölgað hjá embætti landlæknis undanfarin ár. Starfandi landlæknir segir slík tilfelli alltaf tekin alvarlega.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að ungt par hefði nýlega þurft að berjast fyrir læknisþjónustu fyrir dóttur sína, sem svo reyndist vera með heilahimnubólgu. Þeim hafði verið ráðlagt af nokkrum læknum að gefa barninu stíl, en hún endaði á gjörgæslu sökum þess hve seint heilahimnubólgan var greind.

„Það kemur auðvitað alltaf illa við okkur þegar svona er. Og auðvitað dapurt að þegar þannig er að það er kannski ekki hlustað nægilega vel á foreldra. Því miður þá er hættan auðvitað miklu meiri þegar óreynt fólk er í framlínunni. Þetta er ekki algengt en þetta kemur fyrir, því miður, og þetta á helst ekki að koma fyrir,“ segir Leifur Bárðarson starfandi landlæknir.  

Tilkynningum um mál af þessum toga hefur fjölgað hjá Embætti landlæknis, sem Leifur segir jákvætt. Þannig sé tekið á málunum og þau sett í ákveðið ferli.

„Það hefur farið mjög vaxandi núna síðustu ár. Menn eru orðnir mjög meðvitaðir um að það sé gott að skrá þetta og vinna úr þessu. Þetta er tekið bráðalvarlega og það er ekkert verið að sópa einu eða neinu undir teppið. Spítalarnir og stöðvarnar tilkynna til okkar alveg hreint hægri vinstri ef maður segir svo,“ segir Leifur. 

Hann hvetur foreldra til að veigra sér ekki við því að leita til læknis með veik börn. Oft sé ekki nóg að hringja.

„Það er gríðarlega erfitt og vandasamt að greina eitthvað í gegnum síma og hættan er auðvitað alltaf sú að það komi ekki alveg fram í símtalinu það sem foreldrarnir eru að reyna að koma til skila. Þá er nú ágætt að hafa þessa einföldu reglu í huga að mestu sérfræðingarnir í börnum eru yfirleitt alltaf foreldrarnir. Það er að minnsta kosti mín reynsla sem gamall barnaskurðlæknir.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×