Innlent

Hillir loks undir krabbameinsáætlun

Svavar Hávarðsson skrifar
Fram til ársins 2030 má gera ráð fyrir 50% fjölgun krabbameinsgreininga.
Fram til ársins 2030 má gera ráð fyrir 50% fjölgun krabbameinsgreininga. NordicPhotos/GettyImages
Nú styttist mjög í það að krabbameinsáætlun fyrir Ísland líti dagsins ljós. Hins vegar er það gagnrýnt hversu lengi vinnan hefur velkst um í kerfinu. Strax um mitt ár 2014 var boðað að áætlunin yrði lögð fram fyrir árslok.

Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, læknir og formaður ráðgjafarhópsins, telur að krabbameinsáætlunin verði send út til umsagnar fljótlega og birt á vef ráðuneytisins – líklega strax eftir páska. „Hún er tilbúin en það er alveg rétt að þetta hefur dregist úr hófi fram. Við skiluðum af okkur í nóvember 2015. Ég tek undir gagnrýni um seinagang í stjórnsýslunni,“ segir Ófeigur.

Nefnd gagnrýni hefur ekki síst komið frá félagasamtökum, Krabbameinsfélagi Íslands og Reykjavíkur, sem hafa sent ráðuneytinu erindi og ályktað að undanförnu, til að grafast fyrir um stöðu mála. Þeim skrifum hefur ekki verið svarað formlega. Minnt hefur verið á að Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem hefur ekki enn sett heildstæða krabbameins­áætlun. Mikil vinna hafi verið lögð í áætlunina og hætta sé á að hún verði til lítils ef upplýsingar og gögn úreldast.

Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, læknir og formaður ráðgjafarhóps um Krabbameinsáætlunvísir/hanna
Krabbameinsfélag Reykjavíkur samþykkti áskorun á heilbrigðisráðherra síðast 20. mars síðastliðinn. Engan tíma megi missa. Nú greinist árlega 1.500 manns með krabbamein og eftir fimmtán ár megi búast við að tilfellum hafi fjölgað um 30% sem skýrist fyrst og fremst af hækkandi meðalaldri og fjölgun íbúa.

Ófeigur telur að krabbameins­áætlunin sé gríðarlega mikilvægt verkefni.

„Það eru tæplega 15.000 Íslendingar sem eru lifandi með krabbamein í dag. Þetta er orðinn fyrirferðarmikill þáttur í íslenskri heilbrigðisþjónustu, og ekki bara það heldur einnig í félagsþjónustunni,“ segir Ófeigur og bætir við að þessi áætlun sé hluti af stærri heilbrigðisáætlun fyrir Ísland, og það sé á valdi ráðherra að ákveða hvernig farið verður með tillögur ráðgjafarhópsins – hvort unnið verði eftir áætluninni eins og hún kemur fyrir eða lögð verði áhersla á ákveðna þætti hennar.

Spurður um þær breytingar sem krabbameinsáætluninni gætu fylgt nefnir Ófeigur hvernig megi samhæfa þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og félagslegan stuðning.

„Við tökum á því á heildstæðan hátt hvernig fólk fær stuðning, allt frá því það greinist. Það á bæði við um fullorðna og börn. Þetta er voðalega losaralegt og sundurleitt kerfi sem mætir fólki í dag. Full ástæða er til að bæta hér úr því fólk kemur oft mjög laskað út úr meðferð. Þessi skýrsla tekur á þessu frá a til ö,“ segir Ófeigur og nefnir marga fleiri þætti sem ættu að færast til betra horfs, og þar á meðal forvarnir.

Mörg vestræn ríki, þar með talin Norðurlöndin, hafa sett fram sínar eigin krabbameinsáætlanir en til samanburðar lauk þessari vinnu árið 1998 í Noregi. 


Tengdar fréttir

Ný krabbameinsáætlun í lok ársins

Heilbrigðisráðherra sagði að þótt við hefðum ekki sigrast á krabbameinum byggjum við nú að viðamikilli þekkingu og upplýsingum sem byggst hafa upp í gegnum árin og áratugina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×