Innlent

„Komin staðfesting á því að ekki öll ummæli sem brotaþolar láta falla um reynslu sína eru refsiverð eða ærumeiðandi“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður.
Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður.
„Það sem var kannski áhugaverðast í þessu máli var að það snerist mikið til um sönnun þessara ummæla og það vekur upp spurningar um hversu strangt sönnunarmatið á að vera í einkamálum af því að þau eru annars eðlis en sakamál og þau lúta öðrum reglum. Það sem telst sannað í einkamáli þarf ekki að hafa sömu þýðingu og eitthvað sem telst sannað í sakamáli.“

Þetta segir Sigrún Jóhannsdóttir, lögmaður konu sem var í dag sýknuð af stefnu um meiðyrði, meðal annars á grundvelli orðhefndar.

Stjúpbróðir konunnar stefndi henni fyrir tvenn ummæli sem hún lét falla á lokaðri Facebook-síðu árgangs síns úr grunnskóla. Ummælin, sem eru eftirfarandi, voru hluti af lengri færslu þar sem konan lýsti kynferðisofbeldi af hálfu skólabræðra sinna:

„ekki einn af draumum mínum að vera læst inn í herbergi meðan að drengirnir skiptust á að uppfylla sínar óskir“.

„Margir fengu nú leyfi frá A til að gera það sem þeir vildu. Það var nú fínt þar sem hann gerði sama hlutinn. Það fékk enginn leyfi frá mér“.

Sannað að hann þvingaði stjúpsystur sína til kynferðislegra athafna

Stjúpbróðir konunnar er í dómnum kallaður A. Dómurinn taldi fyrri ummælin ekki eiga við hann og sýknaði konuna því þar með en varðandi seinni ummælin þá taldi dómurinn sannað maðurinn hefði þvingað stjúpsystur sína til kynferðislegra athafna.

 

Sú háttsemi hans hafi verið stórlega ámælisverð og ótilhlýðileg og var það álit dómsins að augljós tengsl væru á milli „framangreindrar aðdróttunar stefndu og hinnar ótilhlýðilegu háttsemi stefnanda og að ummæli stefndu hafi ekki gengið lengra en frumverknaður stefnanda hafi gefið tilefni til.“ Því var konan einnig sýknuð hvað varðaði seinni ummælin.

Sigrún segir að skjólstæðingur sinn hafi látið þessi ummæli falla í lokaðri grúppu á Facebook fyrir um tveimur árum síðan og taldi hún málinu lokið.

„En svo einhverju seinna þá er hún óviljug dregin inn í einkamál þar sem hún í rauninni neyðist til þess að sanna þessi ummæli og neyðist til að taka þátt í málinu nema hún myndi greiða alls 350 þúsund krónur. Þetta er náttúrulega ekki há upphæð sem hún er krafin um og maður veltir því fyrir sér ef einstaklingur stendur frammi fyrir því að fara í nokkurra ára málaferli eða greiða einhverja upphæð þá skilur maður alveg að fólk velti fyrir sér hvor er fýsilegri kostur,“ segir Sigrún.

„Það tókst að þagga niður í brotaþolum“

Hún segir að vissulega sé það svo að auðvitað eigi maður ekki að geta sagt hvað sem er opinberlega.

„En það er svolítið slæmt að geta stefnt í rauninni hverjum sem er fyrir hvaða ummæli sem er með þeim afleiðingum að einstaklingurinn fari í gegnum margra ára málaferli.“

Aðspurð um líðan skjólstæðings síns segir Sigrún að málið hafi verið skelfilegt fyrir hana. Hún kveðst vona að málinu sé nú lokið og að því verði ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

En hvaða þýðingu telur Sigrún að dómurinn geti haft?

„Við viljum auðvitað ekki hafa algjörlega óhefta tjáningu þar sem hver sem er getur sakað hvern sem er um hvað sem en við megum heldur ekki gera það á kostnað brotaþola sem að hafa alltaf lifað í þögninni. [...] Með dómnum nú er í raun komin staðfesting á því að ekki öll ummæli sem brotaþolar láta falla um reynslu sína eru refsiverð eða ærumeiðandi,“ segir Sigrún sem telur það gott því einhverjir hafi óttast að það eitt að tjá sig myndi þýða sakfellingu eða yrði ávísun á að þurfa að greiða miskabætur.

„Því það fór hræðsluáróður af stað og það tókst að þagga niður í brotaþolum.“


Tengdar fréttir

Ásökun um kynferðisbrot ekki endilega meiðyrði

Enginn hefur verið dæmdur til greiðslu miskabóta í Hæstarétti fyrir að tjá sig um eigin reynsu af kynferðisbroti, segir Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður konu sem hefur verið krafin um greiðslu vegna ummæla um meint fyrnd kynferðisbrot á Facebook.

Sýknuð af stefnu um meiðyrði á grundvelli orðhefndar

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag konu af stefnu um meiðyrði á meðal annars grundvelli orðhefndar en stjúpbróðir hennar kærði hana fyrir ummæli sem hún lét falla á Facebook og hann taldi að fælu í sér ærumeiðandi aðdróttanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×