Lífið

Hvar eru allir karlarnir?

Snærós Sindradóttir skrifar
Gunnar Börkur Jónasson og Þorleifur Örn Gunnarsson eru í fámennum hópi karlkyns grunnskólakennara. Þeir segja það lykilatriði að fjölga fyrirmyndum barna í kennarahópnum.
Gunnar Börkur Jónasson og Þorleifur Örn Gunnarsson eru í fámennum hópi karlkyns grunnskólakennara. Þeir segja það lykilatriði að fjölga fyrirmyndum barna í kennarahópnum. Visir/Eyþór
Allar rannsóknir benda til þess að það séu foreldraviðtölin sem kennarar kvíði mest fyrir, já og að halda uppi aga í kennslustofunni.“ Þetta segir Gunnar Börkur Jónasson, alltaf kallaður Börkur, sem hefur verið grunnskólakennari síðan 1979. Í 25 ár hefur hann kennt yngstu börnum grunnskólans og er nánast eins og nál í heystakki þegar kemur að karlkyns kennurum hjá yngstu börnunum. Karlkyns grunnskólakennarar eru í dag tæplega 17 prósent félagsmanna í Félagi grunnskólakennara, en viðmælendur Fréttablaðsins í dag eru sammála um að karlar sækist frekar eftir að kenna eldri nemendum.

„Ég var í foreldraviðtölum í síðustu viku og því fylgdi rosalegt álag. Maður þarf að geta sagt óþægilega hluti á nærgætinn hátt en þannig að fólki finnist gott að hafa heyrt þá. Stundum þarf maður að segja hluti sem eru bæði erfiðir fyrir börnin og foreldrana að heyra,“ segir Þorleifur Örn Gunnarsson. Þorleifur er nýr kennari, og útskrifaðist síðasta haust frá Columbia-háskóla í New York með áherslu á kennslu samfélagsgreina. Það er afar sjaldgæft að íslenskir kennarar fari til Bandaríkjanna í framhaldsnám. Þorleifur fór utan með Fulbright-skólastyrk í rassvasanum.

„Ég tók ekki beina leið í gegnum kerfið heldur fór ég í eitt ár í sálfræði og eitt ár í stjórnmálafræði áður en ég fann mig í kennslufræðunum. Svo byrjaði ég í mastersnáminu hér heima og var í því í nokkrar vikur en fann að ég var ekki að fá nýja vídd í mína þekkingu og vildi nýjar áskoranir.“

Börkur hefur yfirgripsmikla reynslu af kennslu en Þorleifur mikla og sérhæfða menntun í kennslu. Börkur kennir yngstu börnunum við Háteigsskóla en Þorleifur kennir miðstiginu á Seltjarnarnesi.

Kennaraskortur yfirvofandi

Í liðinni viku hafa fréttir verið sagðar af kennaraskorti en Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri ná ekki að útskrifa nægilega marga kennara til að viðhalda nýliðun í greininni. Frá 2009 til 2016 hefur nýnemum í kennaradeildinni fækkað um meira en þriðjung, úr 1.925 í 1.294. Við þetta má bæta að aðeins 55 prósent nýnema í kennaranámi við Háskóla Íslands héldu áfram á annað ár. Á árunum 2012 til 2016 lauk tæplega helmingur þeirra sem byrjuðu námi. Á síðustu áratugum hefur karlkyns kennurum líka fækkað margfalt.

„Ég upplifði mig ekki eina strákinn á menntavísindasviði á meðan ég var í námi en kynjahlutfallið sló mig við útskriftina. Ég er svo aftarlega í stafrófinu svo ég horfði á eftir allri strollunni og hafði þá bara ekki gert mér grein fyrir hlutföllunum. Á þremur árum horfði ég á eftir mörgum strákum falla úr námi án þess að útskrifast og í júní 2012 voru sex strákar að útskrifast af 95 kandidötum,“ segir Þorleifur. Hann tekur sem dæmi samnemanda sinn sem ákvað að hætta í námi og fara aftur á sjóinn. Sá var að stofna fjölskyldu og launin sem buðust á landi voru ekkert í líkingu við það sem bauðst á sjónum.

„Ef við tölum um karlkyns yngri barna kennara þá eru þeir nánast ekki til. Við erum tveir hér í Háteigsskóla yfir fimmtugu sem ég held að skipti töluverðu máli fyrir yngri börn. Ég held að það skipti verulegu máli ef hægt væri að mynda teymi með báðum kynjum til að vinna með árgangana. Það þýðir ekki að karlar séu endilega betri en konur, eða öfugt. Það bara skapar fleiri möguleika fyrir börnin,“ segir Börkur.

Þorleifur tekur undir þetta og segist finna það hvernig börnin tengja mismunandi við ólíka kennara. „Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir stétt sem fjallar um mannleg samskipti, að ég tali nú ekki um þroska barna, að nemendur fái bæði fyrirmyndir og möguleikann á að tengja við ólíkan reynsluheim fólks. Ef börn missa alveg af möguleikanum á að tengja við reynsluheim karla og fá karlkyns fyrirmyndir sem eru gjarnan aðeins mýkri og sinna meiri umönnun, þá held ég að það vanti mikið upp á menntunina, bæði fyrir stelpur og stráka. Ég held að stelpur græði alveg jafn mikið á því að hafa karlkyns kennara og strákar.“





Gunnar og Þorleifur hafa svipaða sýn. Börkur er búinn að vera kennari í hátt í fjörutíu ár en Þorleifur er nýútskrifaður frá Columbia-háskóla í New York. Fréttablaðið/Eyþór
Tilgangslaust að ofkeyra börn

„Þegar ég var að byrja, og þannig er það sennilega ennþá, leituðu karlarnir meira í faggreinakennsluna og kennslu í efri stigum skólans. Þeir forðast að kenna yngri börnunum af því hún hefur það orðspor á sér að maður þurfi að haga sér á þennan eða hinn háttinn til að geta kennt litlum börnum. En það eina sem þarf til að kenna litlum börnum er bara að vera svolítið almennilegur,“ segir Börkur. Það liggur í loftinu að viðhorfið sé að kennsla yngri barna þyki ekki jafn fín og ekki jafn krefjandi fyrir metnaðarfulla kennara, og kennsla eldri barna með flóknara námsefni. Börkur er ósammála þessu mati.

„Þetta er auðvitað sambland af mjög mörgu. Þú þarft að vera vel að þér í kennslufræðum og vera vel að þér til að miðla efni til ungra barna á mismunandi hátt því þau eru ólík. Að ég tali nú ekki um þetta einstaklingsmiðaða nám og skóli fyrir alla. En svo þarftu að vera stöðugt vakandi fyrir andlegri, félagslegri og tilfinningalegri líðan barnanna. Þú þarft að geta metið ástand hópsins og einstaklinganna samhliða. Svo greinir fólk svolítið á um hvar áherslurnar eigi að liggja hjá þessum hópi, er það á faglega hlutann, lestur, skrift og reikning, því auðvitað þarf nemandi að kunna það þegar komið er upp í fimmta, sjötta og sjöunda bekk. Það hjálpar. En það má ekki bara keyra á það heldur þarf barninu líka að líða vel andlega og vera sælt.“

Það má kannski koma fram að blaðamaður falaðist eftir viðtali við Börk því það er umtalað hjá foreldrum barna, sem hann hefur kennt, að hann leyfi þeim börnum sem þurfa útrás í kennslustund að fá hana. Börn hafa til dæmis fengið að fara út úr kennslustofunni og hlaupa úr sér mestu orkuna áður en náminu er haldið áfram. „Ég held að það þurfi að nálgast öll börn á mjög sveigjanlegan hátt. Um leið og maður er farinn að ofkeyra einhvern þá bregst hann alltaf við á neikvæðan hátt. Þú prófar auðvitað alltaf hvað má leggja á einstaklinga þannig að það komi að einhverju gagni en það er tilgangslaust að berja einhverju í einhvern sem er ekki tilbúinn. Það á bæði við um stráka og stelpur.“

Skóli nútíðar betri

Íslendingar eiga heimsmet í rítalínnotkun og nokkuð hefur verið fjallað um ofgreiningar barna. Á fimmtudag var greint frá því í fréttum að hvergi í Evrópu væri jafn hátt hlutfall barna greint með sérþarfir eins og á Íslandi. Sextán prósent íslenskra barna eru í dag greind með sérþarfir en annars staðar í Evrópu er hlutfallið á bilinu fimm til sjö prósent. Íslenskir drengir mælast illa í lestrarkönnunum PISA. Samkvæmt niðurstöðum lesskimunar í Reykjavíkurborg árið 2011 gátu um 70 prósent nemenda lesið sér til gagns.

Börkur hefur kennt í tæpa fjóra áratugi en segist ekki finna fyrir því að börn nútímans séu mikið frábrugðin börnum síðustu aldar. „Skólinn hefur breyst mjög mikið. Skólinn horfir mikið betur á nemendahópinn sem heildstæðan hóp sem þarf að koma til móts við. Að halda því fram að skólinn í gamla daga hafi verið betri en skólinn í dag er meiriháttar firra. Metnaðurinn í dag er margfaldur á við það sem hann var fyrir þrjátíu árum síðan,“ segir hann og bætir við að áður fyrr hafi samt verið mikið auðveldara að vera kennari. „Af því það skipti sér enginn af þér.“

Börkur segist finna fyrir því að hann vinni í faglegu umhverfi þar sem starfsmenn bæti hver annan. „Það hvernig tekið er á málum eins og einelti og félagslegri einangrun var bara villimennska í gamla daga. Þó í dag sé gagnrýnt að við gerum ekki nóg þá eru framfarirnar gífurlegar.“

Þorleifur tekur undir þetta. „Ég held að við séum að horfa til þess að þeir sem koma til kennslu séu býsna vel undirbúnir faglega. Þeir eru með góðan bakgrunn í þeim kjörsviðum sem þeir læra til. Svo ég tali fyrir mig sem ungan kennara þá er stærsti munurinn á því að byrja að kenna úthaldið yfir lengri tíma. Til að byrja með er maður að svamla í djúpri sundlaug. En við erum með góðan hóp sem er að reyna að kenna krökkum á Íslandi.“

Hann teiknar á blað bogadregna línu sem sýnir hæðir og lægðir, öldudali og toppa. Því næst dregur hann línu þvert í gegn og sýnir miðgildið. „Ég held að þessi hópur sé samt að sumu leyti þreyttur. Það er búið að vera viðvarandi hærra meðalálag á kennurum. Verkefni eins og innleiðing á nýju námsmati, nýir einkunnar- skalar og allt það sem bæst hefur við á undanförnum árum hefur þarna áhrif en stéttinni finnst hún ekki hafa fengið borgað fyrir það. Það var svolítið trist stemning að koma nýr inn í miðri kjarabaráttu í haust. Því þá nennir enginn að gera neitt. Það drepur niður alla nýsköpun ef manni finnst vinnan ekki metin að verðleikum.“

„Ég hef aldrei viljað gera of mikið úr álagi á kennari,“ segir Börkur, „en þetta er öðruvísi starf en mörg önnur störf og fólk virðist eiga dálítið erfitt með að horfast í augu við það og vilja taka kennarastarfið og leggja það á borðið eins og hvert annað skrifstofustarf.“

„Já, það er eins og þeir sem haldi um pyngjuna hafi áhyggjur af því hvort verið sé að vinna af alvöru í skólunum. Það er eins og það skorti skilning á því að kennarastarfið er skapandi starf. Það er hópur af fólki að sérsníða námsefni fyrir nemendur, eða nálgast viðfangsefnið mismunandi til að viðhalda áhuga. Og það er skapandi nálgun. Maður er samt ekki skapandi eftir pöntunum heldur kemur andinn yfir fólk. Ef ég er að vinna að einhverri góðri hugmynd þá er ég tilbúinn að vera frameftir á daginn á milli þess sem úthaldið er kannski minna. En þó ég sitji í skólanum frá tvö til fjögur, samkvæmt viðveruskyldu, þá er ekkert víst að það fáist sama framleiðnin út úr því,“ segir Þorleifur.

Kynin ekki svo ólík

Niðurstöður síðustu PISA-rannsóknar birtust fyrir jól og sýndu að þriðjungur drengja í tíunda bekk getur ekki lesið sér til gagns. Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, lét þá hafa eftir sér að sú staðreynd að hópurinn gæti ekki lesið sér til gagns væri ógn við lýðræðið í landinu.

Þorleifur og Börkur segjast ekki upplifa að það sé mikill munur á strákum og stelpum í skólakerfinu. Sérstaklega ekki á fyrstu árum skólagöngu barnanna. Sumar stelpur séu lakar í lestri en aðrar góðar og það sama eigi við um strákana.

„Ég vil ekki segja að það sé einhver eðlismunur á milli kynjanna. Ég held að þetta séu einstaklingar sem eru mismunandi en ég held að það sé skortur á því að vissir nemendur fái aðgang að kennurum sem henti þeim. Að hluta til er það líka skortur á körlum í stéttinni,“ segir Þorleifur. Aðspurðir hvers vegna strákarnir mælist samt lakari í lestri en stelpurnar segjast þeir ekki hafa svörin á reiðum höndum. Þorleifur nefnir að kannski þurfi öflugri fyrirmyndir fyrir stráka í skólastarfi.

„Ég held að það sé alveg lykilatriði í því að meta hvort kerfið sé hentugt börnum, hvort í því séu fjölbreyttir möguleikar fyrir þau til að læra. Það hlýtur að velta á fagmennsku og gæðum kennarans hverju sinni að hann hafi þekkingu og innsýn til að takast á við ólíkar þarfir nemenda. Það er algjört grundvallaratriði að nemendur hafi möguleika á að læra á sínum forsendum. Ef hlutirnir eru ekki að virka þarf að bæta kennsluaðferðir.“

Börkur tekur undir það. „Menn halda að þetta sé vélrænt starf og að það sé bara hægt að búa til kennsluáætlun og svo geti þetta rúllað einhvern veginn. En það er ekki svoleiðis. Það þarf stöðugt að laga kerfið að nemendunum, bæði strákum og stelpum. Sumir segja að stelpur þroskist fyrr og strákarnir nái þeim seinna og það má vel vera að það sé eitthvað til í því. En sumir strákar rúlla upp lestrarnámi strax í sex ára bekk. Það er ekki eins og allir strákar geti ekki lesið og allar stelpur geti það.“

Þorleifur segir þó að oft brjótist hegðan drengjanna út ólíkt hegðun stelpnanna. Þeir séu meira út á við á meðan stelpurnar séu hlédrægari. „En það eru staðalmyndir sem strákar og stelpur gangast upp í. Stelpurnar fá svo hrós fyrir að vera fínar og duglegar en strákarnir háværir og sterkir.“

Það bendir kannski til þess að strákarnir verði að fá jákvæða athygli og umbun fyrir að vegna vel í náminu. Með öðrum orðum þurfa að vera jákvæðir hvatar fyrir þá til að leggja á sig í skólastofunni. Samfélagið þurfi í raun að leggja fram sömu gildi fyrir stráka og stelpur, en því sé ábótavant í dag.

„Það sem mér finnst samt nærtækast að benda á er lítill fjöldi karlmanna í kennslunni. Ég sé það svart á hvítu að það voru ákveðnir strákar pínulítið upp á kant við kerfið en tengja við mig þegar ég byrjaði að kenna. Koma mín inn í þann hóp var þannig jákvæð,“ heldur Þorleifur áfram.

„Já, eftir því sem ég eldist finn ég hvað það verður erfiðara að lesa í líðan tíu til tólf ára stelpna. Það er erfiðara fyrir mig að komast inn í þeirra hugarheim,“ nefnir Börkur.

„Ég gæti líka trúað því að það séu tvö mengi nemenda, annar hópurinn tengir meira við konur og hinn meira við karla. Ef það skortir alveg á karlamengið held ég að stelpurnar sem eru í hópnum sem tengir betur við karla komi samt til með að spjara sig betur en strákarnir sem eru í sama mengi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×