Forstöðumaður Gistiskýlisins segir marga menn fasta í gildru og nær útilokað sé að þeir geti unnið í sínum málum hér á landi - ekki nema meðferðarkerfið á Íslandi gjörbreytist.
Verkefnastjóri Barka segir marga afar illa stadda og nefnir hún sem dæmi manninn sem fannst látinn á Selfossi í gær en hann var pólskur og fastagestur í gistiskýlinu ásamt um þrjátíu í viðbót frá Austur-Evrópu. Nú verður þeim og öðrum sem eru við það að fara á götuna - boðin meðferð í heimalandi sínu en öllum er frjálst að snúa aftur til Íslands. Ráðgjafarnir hafa starfað hér á landi í einn máunuð, hitt 34 menn og nú strax er einn farinn í meðferð í Póllandi.
Barkasamtökin byggja á jafningjafræðslu en Piotr Smigielski er fyrirliði Barka á Íslandi. „Ég styðst við mína reynslu. Ég var sjálfur heimilislaus fyrir þremur árum. Þá bjó ég þrjú ár á götunni í HOllandi en þáði hjálp frá Barka. Ég ákvað síðan að taka þátt sjálfur í þessu verkefni í Hollandi og aðstoða þá sem eru í sömu stöðu og ég var í," segir hann.
Magdalena Kowalska er aðstoðarmaður Piotr. „Það er mikilvægt að fólkið fái að komast heim í meðferð og geta unnið í sínum málum á móðurmálinu. Einnig er gott fyrir þá að komast nær fjölskyldu og vinum - en margir eiga stóra fjölskyldu í heimalandinu sem þeir hafa misst sambandið við," segir hún.