Innlent

Hreinsuðu ís og snjó af mælitækjum við Kötlu og Bárðarbungu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísindamenn að störfum við Grænufjöll.
Vísindamenn að störfum við Grænufjöll. Mynd/Landhelgisgæslan
Starfsfólk Veðurstofu Íslands og Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra naut liðsinnis þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar við að yfirfara mælitæki og búnað í grennd við Kötlu og Bárðarbungu í gær.

Jarðskjálftavirkni hefur verið töluverð á þessum slóðum að undanförnu og því vilja vísindamenn fylgjast grannt með því sem þar fer fram.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli um hálfeittleytið í gær og um 45 mínútum síðar var lent í Grænufjöllum sunnan Mýrdalsjökuls. Þar yfirfóru sérfræðingar Veðurstofunnar og almannavarnadeildar mælibúnað. Hálftíma síðar fór þyrlan aftur í loftið og var stefnan þá tekin á Kistu í Vonarskarði.

Sjá einnig: Öll fjögur virkustu eldfjöllin í einhvers konar ham

Ákveðið var að kanna athugunarstöðina á Hamrinum, ofan Gráöldu, og sjá hvers vegna hún sendi ekki lengur upplýsingar til bækistöðvar. Þegar flogið var yfir staðinn kom í ljós að allar sólarsellurnar voru á kafi í snjó og ís. Þá hafði vindrella stöðvarinnar fokið niður.

Um hálfþrjúleytið lenti þyrlan á Kistu og þar var mannskapur og búnaður settur út. Þaðan flaug þyrlan til Akureyrar til þess að taka eldsneyti á meðan viðhaldsvinna fór fram.

Einnig var ákveðið að koma við hjá Hamrinum. Þar var lent laust fyrir klukkan fimm, snjórinn hreinsaður af sólarsellunum og vindrellunni sem fannst í snjónum kippt með í bæinn. TF-LIF lenti svo á Reykjavíkurflugvelli rúmri klukkustund síðar.

Komið var við á Hamrinum.Mynd/Landhelgisgæslan

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×