Innlent

Yngsta konan til að gegna ráðherraembætti: Ekki markmið að verða ráðherra fyrir þrítugt

Anton Egilsson skrifar
Þórdís Kolbrún er yngsta konan frá upphafi til að gegna ráðherrastöðu hér á landi.
Þórdís Kolbrún er yngsta konan frá upphafi til að gegna ráðherrastöðu hér á landi. Vísir/Vilhelm
„Ég tek við þessu af auðmýkt og þakklæti,” sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir í samtali við Vísi en hún er nýskipaður ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þórdís sem er 29 ára gömul er yngsta konan frá upphafi til að gegna ráðherrastöðu hér á landi.

Hún hlakkar mikið til að takast á við nýja starfið og þakkar bæði formanninum, Bjarna Benediktssyni, og þingflokknum það traust sem henni er sýnt. Hún segist þá algjörlega reiðubúin að axla þá ábyrgð sem henni hefur verið falin.

Þórdís sem er lögfræðingur að mennt situr nú sitt fyrsta kjörtímabil sem þingmaður og hefur því litla reynslu sem slíkur. Hún hefur þó reynslu af störfum í ráðuneyti því áður starfaði hún sem aðstoðarmaður Ólafar Nordal í innanríkisráðuneytinu. Þá reynslu segist hún taka með sér inn í nýja starfið.

„Ég hef auðvitað góða reynslu úr ráðuneytinu með Ólöfu. Það að hafa verið í læri hjá henni er ekki lítils virði og ég tek það með mér. Svo reynir maður auðvitað bara að nýta þá mannkosti sem maður hefur.”

Í pólitík til að hafa áhrif

Þá segir Þórdís að hún hafi ekki búist við því að verða gerð að ráðherra. Hún segir það jafnframt ekki beint hafa verið á markmiðalistanum að verða ráðherra fyrir þrítugt. Það sé hins vegar svo að hennar sögn að þegar maður taki ákvörðun um að fara í pólitík þá geri maður það til að hafa áhrif. Að setjast í ráðherrastól sé góð leið til þess.

„Það er góð leið til að hafa áhrif að setjast ráðuneyti og fá að stýra því.”

Henni líst þá afskaplega vel á nýskipaða ríkisstjórn sem hún segir bera með sér ferska vinda.

„Ég er handviss um að það séu mikil tækifæri í þessari ríkisstjórn, þetta eru ferskir vindar,” sagði Þórdís að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×