Skoðun

Öflugra viðbragð borgar sig

Guðjón Sigurbjartsson skrifar
Fjölgun fólks fylgir að öðru jöfnu fjölgun slysa, sjúkdómstilfella, leita og björgunaraðgerða þar sem sérhæfingar er þörf. Bættur lífsstíll og forvarnir draga aftur á móti verulega úr. Þannig hefur bílslysum fækkað með bættu vegakerfi og ökukennslu, sjóslysum með bættum skipum og skipulagi sjósóknar og alvarlegum sjúkdómum með bólusetningu og betri lyfjum. Heilsa batnar og meðalævi lengist.

Mikilvægi góðs lífsstíls og öflugra forvarna verður seint ofmetið en þegar út af bregður skipta rétt, fumlaus viðbrögð miklu máli. Skoðum þetta nánar.

Núverandi viðbragðsaðilar, yfirlit

- Neyðarlínan rekur neyðarvaktstöðvar með samræmda neyðarnúmerinu 112 og sér um almenna svörun neyðarboða, fjarskiptaþjónustu og skyldan rekstur fyrir land og mið. Aðaleigendur eru ríki og Reykjavíkurborg.

- Rauði krossinn á Íslandi á og rekur sjúkrabifreiðar og tilheyrandi tækjabúnað til sjúkraflutninga fyrir landið allt, en ríkið greiðir obbann af kostnaðinum. Sjúkrabílar í rekstri eru 77 á 40 stöðum. Þar af er Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) með 19 sjúkrabíla á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, með samtals 30 manna áhöfn. Árlegur fjöldi útkalla er um 32 þúsund, þar af um 26 þúsund hjá SHS. Sjaldnast er um bráðavanda að ræða heldur flutninga sjúkra á milli staða. Auk reksturs sjúkrabíla sinnir Rauði krossinn fjöldahjálp og sálfélagslegu hjálparstarfi í kjölfar slysa og náttúruhamfara.

- Sveitarfélögin, sér eða í samlögum, reka 44 brunavarnir eða slökkvilið. Sex slökkviliðanna annast sjúkraflutninga en heilbrigðisstofnanir gera það annars. Slökkviliðsmenn eru víða einnig sjúkraflutningamenn og sumir þeirra lærðir bráðatæknar (paramedics) sem geta veitt fyrstu hjálp.5)

- Landhelgisgæslan (LHG)er með þrjár þyrlur, eina flugvél og varðskip sem einnig er notað við leit og björgun.4) Þyrluútköll eru um 135 á ári. Þyrlur LHG eru staðsettar í Reykjavík og að jafnaði ein til tvær tiltækar áhafnir. Í áhöfn á þyrlum LHG eru að jafnaði 5 menn, þ.e. flugstjóri, flugmaður, sigmaður, spilmaður og læknir. Flugvélar LHG koma að leit og björgun á sjó og landi og varðskipin á sjó.

- Mýflug á Akureyri annast almennt sjúkraflug sem að jafnaði eru 1-2 á dag.

- Landsbjörg vinnur að slysavörnum, leit og björgun. Samtökin hafa 18.000 sjálfboðaliða sem starfa í 99 björgunarsveitum, 33 slysavarna- og kvennadeildum og 54 unglingadeildum, skipt á 18 landsvæði.

- Læknar, heilsugæslur og bráðamóttökur heilbrigðiskerfis landsins taka við þar sem þörf er á.

Samhæfingarstöð almannavarna tekur til starfa í vissum tilvikum.

Fleiri aðstoða fólk í neyð svo sem líknarfélög, hjálparstarf, lögregla, Vegagerðin, Isavia, ráðuneyti og fólk á vettvangi.

Miðað við hversu margir og mismunandi aðilarnir eru virkar kerfið furðu vel, meðal annars vegna þess hversu margir eru tilbúnir til að leggja mikið á sig til að hjálpa öðrum. Með faglegri og markvissari starfsháttum má þó bæta viðbrögð í neyðartilvikum og það meira að segja borgar sig.

Nýtt og betra skipulag

Sett verði upp viðbragðsmiðstöð í hverjum landsfjórðungi fyrir sjúkraflutninga, slökkvilið, leit og björgun. Hver viðbragðsmiðstöð hafi sjúkrabíla, slökkvibíla, leitarbíla, þyrlu ásamt tilheyrandi búnaði og starfsliði. Með þyrluflugmanni í útköll getur farið nánast sama lið og í útkall sjúkrabíls. Liðsmaður Landsbjargar á staðnum verði tengiliður björgunarsveita svæðisins. Viðbragðsmiðstöðvarnar tengist vel aðalsjúkrahúsi viðkomandi heilbrigðisumdæmis. Skref í þessa átt hefur verið stigið í Árborg með tilkomu Björgunarmiðstöðvarinnar. Sjúkraflutningamenn ganga stundum vaktir á HSU og koma til aðstoðar ef þörf gerist.

Hver viðbragðsmiðstöð hafi útstöðvar eftir þörfum, samanber staðsetningu slökkviliða nú. Hver útstöð hafi slökkvibíl og tilheyrandi búnað en sumar einnig sjúkrabíl og starfsfólk, samanber skipulag SHS og víðar.

Með því að nota þyrlur oftar í stað sjúkrabíla er talið að viðbragðstími styttist í yfir 20% tilvika. Athugun á Suðurlandi sýnir að einungis 2 af 56 sjúklingum með brátt hjartadrep og ST-hækkun voru fluttir með þyrlum1). Flutningstími með sjúkrabílum er oft of langur í þessum tilvikum en ef þyrla væri til staðar mætti stytta viðbragðstímann verulega. Reyndur fagaðili í sjúkraflutningum giskar á að sjúkraþyrla staðsett á Suðurlandi muni bjarga að minnsta kosti fimm mannslífum á ári og bæta mörg önnur. Mest er þörfin á Suðurlandi en einnig er tímabært að staðsetja sjúkraþyrlur á Austurlandi, Akureyri og Vesturlandi.

Aukin notkun sjúkraþyrlna minnkar þörf fyrir flugvöll í nálægð spítala þó almennt sjúkraflug verði áfram til staðar. Þær 9.000 ferðir sem áætlaðar eru á nýja Landspítalann á sólarhring, verða flestar með bílum, þar af 100-200 í sjúkrabílum. Því er nærtækast að staðsetja nýja Landspítalann með tilliti til framtíðarumferðar á höfuðborgarsvæðinu.

Brunavarnir og slökkvilið verði rekin af samlögum þeirra sveitarfélaga sem viðbragðsmiðstöðin þjónar en ekki einstökum sveitarfélögum.

Stofnsetja þarf „Viðbragðsmiðstöð Íslands“ eða aðlaga Samhæfingarstöð Almannavarna til að halda utan um viðbragðsmál á landinu.

Breytingarnar borga sig

Þær breytingar sem hér eru lagðar til borga sig ekki aðeins tilfinningalega og fjárhaglega fyrir þá sem bjargast úr helju og öðlast betra líf sem og aðstandendur þeirra heldur er augljós fjárhagslegur ávinningur fyrir samfélagið allt.

Kostnaður við hentuga sjúkraþyrlu ásamt 5 manna áhöfn er á bilinu 500-700 milljónir króna á ári 2 og 4). Með samnýtingu starfsmanna viðbragðsmiðstöðvar er viðbótarkostnaður lægri eða á bilinu 400-500 milljónir kr. á ári. Ef reiknað er með að þyrlur komi á Suðurland, Austurland, Norðurland og Vesturland en LHG fækki um eina á móti, er heildarkostnaður um 1,5 milljarðar kr. á ári. Í útreikningum um hagkvæmni samgöngubóta er miðað við að verðmæti hvers mannslífs um 500 milljónir kr.3) Ef þyrluvæðingin bjargar sem svarar 10 lífum árlega gerir það 5 milljarða kr. Ef rekstur hverrar viðbragðsstöðvar bætir 500 milljónir kr. við núverandi kostnað og þær verða fjórar, er fjárhagslegur ávinningur nettó um 3 milljarðar kr. árlega.

Við þetta má bæta ávinningi vegna þeirra sem fá betri bót meina sinna, mögulegt hagræði af betri staðsetningu flugvallar og sjúkrahúss leikur á tugum milljarða, tryggari ímynd Íslands sem ferðamannalands og tilfinningalegum ávinningi allra hlutaðeigandi.

Í heild mun ávinningur af ofangreindum breytingum nema nokkrum milljörðum, jafnvel tugum milljarða kr. á ári, auk þess sem þær eru ímyndarlega og tilfinningalega ómetanlegar.

Hér hefur verið bent á gríðarlega mikilvægar og hagstæðar endurbætur á starfsemi viðbragðsaðila á Íslandi. Til að skoða þetta nánar þarf að setja saman hóp fagfólks. Greina þarf kosti og galla, kostnað og ábata við mismunandi útfærslur. Þetta má ekki dragast því þetta er jákvætt og mikilvægt mál í alla staði.

Tilvísanir:

1. Björn Gunnarsson‚ barna-, svæfinga- og gjörgæslulæknir - Um sjúkraflug2. Styrmir Sigurðsson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi - Skoða kaup á sjúkraþyrlu sem staðsett yrði á Suðurlandi

3. Mannvit – Aðferðir við að meta kostnað umferðarslysa og virði lífs – Október 2014

4. Landhelgisgæslan (LHG) – Samtal greinarhöfundar við starfsmann.

5. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) - Samtal greinarhöfundar við starfsmann.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.