Innlent

Sigurður kom að bílnum dekkjalausum: Þurfti að hafa hraðar hendur til að komast í messu

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Vignir var á leið í messu í Grafarvogi þegar hann sá bílinn.
Sigurður Vignir var á leið í messu í Grafarvogi þegar hann sá bílinn.
„Ég vaknaði upp úr hádegi, var á leið í messu og svo kemst ég að því að það eru engin dekk undir bílnum. Það er alveg ömurlegt,“ segir hinn þrítugi Sigurður Vignir Jóhannsson, íbúi í Árbæ í samtali við Vísi.

Sigurður Vignir birti mynd á Facebook af því sem blasti við honum á bílaplaninu í Rofabæ í Árbæ í hádeginu.

„Það var svakalegt sjokk, en þurfti að hafa hraðar hendur til að redda mér fari til að komast í messuna þar sem ég var að syngja,“ segir Sigurður sem var að syngja í Borgum í Spönginni í Grafarvogi. Hann segir það versta við að lenda í svona sé ekki eignatjónið heldur að geta ekki komast leiðar sinnar.

Hann segist vera með alla anga úti til að ná dekkjunum aftur. „Maður hefur þetta með í bænum sínum og svo var ég með skilaboð á Facebook sem margir hafa tekið undir og deilt á síðum sínum.“

Sigurður Vignir segir að fólk hafi verið að spyrja út í dekkjastærð og sagst eiga til dekk sem þeir vilja bjóða sér. „Dekkin mín eru þó ekki komin í leitirnar enn.“

Þú heldur að það sé ekki of mikil bjartsýni að auglýsa eftir dekkjunum?

„Á maður ekki bara að vona það besta og búa sig undir það versta? Það er bara þannig,“ segir Sigurður Vignir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×