Innlent

Formaður og ritari Framsóknarfélags Skagafjarðar segja af sér

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður og gjaldkeri stjórnar Framsóknarfélags Skagafjarðar hyggjast þó ekki segja sig úr Framsóknarflokknum sjálfum. Á mynd sést Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins.
Formaður og gjaldkeri stjórnar Framsóknarfélags Skagafjarðar hyggjast þó ekki segja sig úr Framsóknarflokknum sjálfum. Á mynd sést Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins. Vísir/Ernir
Formaður og ritari stjórnar Framsóknarfélags Skagafjarðar sögðu af sér embættum í dag eftir að Gunnar Bragi Sveinsson oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi hætti við að bjóða sig fram í forvali flokksins á sunnudag eftir viku.

Jóhannes Björn Þorleifsson fráfarandi formaður Framsóknarfélagsins staðfesti í samtali við fréttastofu að hann og Hrund Pétursdóttir ritari félagsins hefðu sagt af sér embættum sínum. Sagði Jóhannes hann og Hrund afar ósátt við hvernig komið hafi verið fram við Gunnar Braga sem hann hefði unnið með í mörg ár. En Jóhannes Björn sem er 33 ára gamall hefur starfað innan Framsóknarflokksins frá því hann var sextán ára gamall.

„Við ætlum samt ekki að segja okkur úr Framsóknarflokknum og ég hyggst alla vega vinna innan floksins áfram,” sagði Jóhannes Björn í samtali við fréttastofu. Hann vildi hins vegar ekki gera mikið úr þessari ákvörðun sinni opinberlega heldur taka umræðuna með félögum sínum innan flokksins.

Gunnar Bragi tilkynnti á Facebook síðu sinni í dag að hann hefði bæði hætt við framboð og sagt sig úr flokknum eins og fram kom bæði í fréttum Vísis fyrr í dag og á Stöð 2 í kvöld. En þar var einnig greint frá því að Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga og fólk nátengt honum og kaupfélaginu hefði unnið skipulega gegn Gunnari Braga innan flokksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins verður einn af gestum Heimis Más Péturssonar fréttamans í Víglínunni í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl 12:20 á morgun.

Í fyrri útgáfu þessarar fréttar var Hrund Pétursdóttir sögð gjaldkeri stjórnar Framsóknarfélags Skagafjarðar. Hún gegndi hins vegar stöðu ritara félagsins. Þetta hefur verið leiðrétt.


Tengdar fréttir

Gunnar Bragi hættir í Framsóknarflokknum

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur ákveðið að segja sig úr Framsóknarflokknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.