Innlent

Ríkið tapar stórfé á slugsum er koma sér undan sektardómum

Sveinn Arnarsson skrifar
Fangelsi á Hólmsheiði fjölgaði ekki fangelsisplássum því öðrum úrræðum var lokað á sama tíma.
Fangelsi á Hólmsheiði fjölgaði ekki fangelsisplássum því öðrum úrræðum var lokað á sama tíma. Vísir/Vilhelm
Ríkissjóður verður árlega að afskrifa sektir einstaklinga sem velja frekar að sæta vararefsingu dómstóla – sem er afplánun í fangelsi. Þessir einstaklingar fara aftast í forgangsröðun fangelsismálastofnunar og því fyrnast dómar þeirra. Sleppa þeir því við bæði við sektargreiðslu og afplánun í fangelsi.

Erna Jónmundsdóttir, deildarstjóri innheimtu hjá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, sem innheimtir allar sektir vegna sakamála hér á landi, segir að þau afskrifi sektargreiðslur upp á 76 milljónir króna í ár af ýmsum ástæðum. Um 12 þúsund sektir eru lagðar á hér á landi vegna þessa, allt frá umferðarlagabrotum til fíkniefna- og vopnalagabrota. Um átján hundruð sektargreiðendur hafa fengið birta ákvörðun um afplánun vararefsingar þar sem þeir hafa ekki greitt sekt á tilskildum tíma.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.vísir/anton brink
„Boðunarlisti fangelsismálastofnunar er langur og plássleysið hamlar því að lögregla geti sótt fólk til afplánunar. Í langflestum tilvikum þegar viðkomandi fær boð um afplánun eða lögregla sækir einstaklinga til afplánunar er sektin greidd. Því væri hægt að innheimta sektir hraðar ef pláss væri fyrir hendi,“ segir Erna.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að tvennt verði að hafa í huga er þessi mál eru rædd.

„Í mínum huga mættu yfirvöld hafa betra aðgengi að upplýsingum um fjárhagslega getu fólks. Flestir greiða um leið og þeir þurfa að sæta vararefsingu sem gefur til kynna að fjármagn sé fyrir hendi til að greiða sektina.“

Miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp verður síður en svo breyting á þessu þar sem ekki á að auka fjárveitingu til málaflokksins. Að sögn Páls verður því nýja fangelsið á Hólmsheiði ekki rekið á fullum afköstum vegna skorts á rekstrarfé.

„Einnig verður að hafa í huga að vararefsing er vararefsing. Stór hluti afplánar vararefsingu oft í samfélagsþjónustu og þeir sem eftir standa þurfa með réttu að bíða eftir plássi. Þetta eru sömu pláss og við erum að forgangsraða inn í mun alvarlegri óskilorðsbundnari brotum. Á meðan sá boðunarlisti telur um 600 manns mun þessi hópur áfram þurfa að bíða sem ákveður að greiða ekki sektir sínar,“ segir fangelsismálastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×