Innlent

Fær ekki reynslulausn vegna skorts á félagslegu húsnæði

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Fangelsismálastofnun afturkallaði ákvörðun sína um reynslulausn fanga á Kvíabryggju vegna þess að Reykjavíkurborg hafði ekki tryggt honum félagslegt húsnæði. Samkvæmt bréfi frá fangelsisstofnun átti fanginn að ljúka afplánun 25. ágúst síðastliðinn en hann er enn vistaður á Kvíabryggju.

Bréfið sem fanginn fékk frá Fangelsismálastofnun
Fanginn átti að fá reynslulausn í lok ágúst og hlakkaði hann mikið til að fara út í samfélagið á ný. Fangelsismálastofnun dró ákvörðun sína til baka degi áður en fanginn átti að losna. Í bréfinu segir að verið sé að finna viðunandi húsnæði og að stofnunin muni endurskoða ákvörðun sína um leið og það liggur fyrir. 

Fanginn sem er 33 ára gamall og á við margvíslegan vanda að stríða. Hann á í engin hús að vernda, en hann getur hvorki farið á almennan leigumarkað né í fjölskylduhús.

Afstaða félag fanga á Íslandi segir málið hneykslanlegt.

„Málið brýtur í manni hjartað. Það var búið að undirbúa kveðjumáltíð um kvöldið og kaupa ís og svo framvegis. Svo er bara öll kippt úr sambandi og þessi einstaklingur situr enn á Kvíabryggju,“ segir Aðalheiður Ámundadóttir, stjórnarmaður Afstöðu.

Aðalheiður Ámundadóttir
Hún segir það vera grafalvarlegt mál að reynslulausn geti beinlínis verið bundin því skilyrði að viðkomandi hafi félagslegt húsnæði. 

„Það gengur ekki að við séum með fólk frelsissvipt af þeirri ástæðu einni að stjórnsýslunni tekst ekki að finna þeim félagslegt húsnæði. Ég vek athygli á því að frelsi manna nýtur sérstakrar verndar í 67 grein stjórnarskrárinnar og um frelsissviptingu gilda mjög strangar reglur,“ segir Aðalheiður.

Undanfarið hefur Afstaða þrýst á nauðsyn þess að það séu einhver úrræði og aðstoð í boði fyrir fanga eftir afplánun.

Páll Winkel fangelsismálastjórivísir/andri marinó
Reykjavíkurborg setti nýlega á fót starfshóp um félagslega þjónustu við fanga en tilgangur verkefnisins er að öðlast yfirsýn yfir aðstæður og þau úrræði sem bjóðast einstaklingum sem eru í afplánun og eru að ljúka afplánun. Markmið starfshópsins er meðal annars að móta tillögur að félagslegri þjónustu við fanga.

Páll Winkel fangelsismálastjóri, segist ekki geta tjáð sig um málefni einstaka fanga. Hann fagnar þó nýja starfshópnum sem settur var saman að norrænni fyrirmynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×