Erlent

Óður til flóttamanna á hafsbotni

Birta Björnsdóttir skrifar
Frá og með 1. mars næstkomandi geta gestir og gangandi á spænsku eyjunni Lanzarote heimsótt þar býsna frumlegt safn. Vissara er að hafa súrefniskút meðferðis því safnið er á hafsbotni.

Breski listamaðurinn Jason deCaires Taylor lagði nýverið lokahönd á að koma verki sínu fyrir undan ströndum Lanzarote en alls verða um þrjú hundruð verk til sýnis á safninu.

Verkið vegur um tíu tonn og þurfti umtalsverða verkfræðikunnáttu til að sökkva herlegheitunum á hafsbotn.

Safnið verður opnað almenningi í mars og svamlandi safnverðir koma til með að leiða syndandi gesti um sýninguna, sem er að finna um 500 metrum undan suðurströnd Lanzarote.

Þetta verk Taylors nefnist Fleki Lampedusa og er nafnið er tilvísun í hið þekkta verk franska málarans Theodore Gericault, Fleki Medúsu (e. The Raft of the Medusa).

Verkið vísar einnig til þeirra 366 flóttamanna sem drukknuðu undan ítölsku ströndinni Lampedusa árið 2013 en safnið allt ber stöðu flóttamanna í heiminum þögult vitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×