Innlent

Fótboltamörk og trampólín á Bessastöðum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid eru nýju forsetahjón Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid eru nýju forsetahjón Íslands. Vísir/Eyþór
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur var settur inn í embætti forseta Íslands síðdegis í dag. Í ræðu sinni við embættistökuna þakkaði Guðni traustið sem honum hefði verið sýnt að taka við embætti forseta Íslands. Þá þakkaði hann jafnframt forverum sínum í embættinu, Ólafi Ragnari Grímssyni og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrir þau ráð sem þau hefðu gefið nýju forsetahjónunum.

Í viðtali við RÚV eftir athöfnina sagði Guðni að gengið væri út frá því að þingkosningar verði í haust. Hann sagði nánast allt stjórnmálalífið vera að setja sig í stellingar fyrir haustkosningar og að mikið verði að ganga á til að þau heit sem stjórnarflokkarnir gáfu í vor verði ekki efnd.



Guðni Th. Jóhannesson þakkaði meðal annars forverum sínum í ræðu sinni í dag.Vísir/Eyþór
Vonar að ríkisstjórnarmyndun gangi vel

Guðni, sem þekkir embætti forseta Íslands býsna vel, segist vona að ríkisstjórnarmyndun tekist án aðkomu forsetans. Það sé forsetans að velja þann sem þyki líklegastur til að mynda stjórn og það þurfi ekki að vera leiðtogi stærsta flokksins eða sigurvegari kosninganna.

Margt var um manninn við innsetningarathöfnina og meðal gesta voru handhafar forsetavaldsins, þingmenn og ríkisstjórn Íslands. Formenn allra stjórnmálaflokka, nema Framsóknarflokks voru viðstaddir athöfnina, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var á ferðalagi og komst því ekki.

Ljóst er að líf og fjör mun fylgja nýju forsetafjölskyldunni á Bessastaði.vísir/eyþór
Börnin munu ganga í skóla á Álftanesi

Guðni sagði einnig í viðtali við RÚV að ásýnd Bessastaða muni breytast töluvert með tilkomu fjölskyldu sinnar en hann og Eliza eiga saman fjögur börn og auk þess á Guðni dóttur úr fyrra hjónabandi. Þau hyggjast búa á Bessastöðum og börnin muni ganga í skóla á Álftanesi. „Það verða fótboltamörk og trampólín á grasinu fyrir framan Bessastaði,“ segir Guðni og ljóst er að forsetabústaðurinn mun iða af lífi næstu fjögur ár. Viðgerðir standa nú yfir á Bessastöðum, en búist er við að forsetafjölskyldan flytji í nýju heimkynni sín innan skamms.

Ljóst er að gleðin hefur verið ríkjandi á Bessastöðum í kvöld, en þarf tóku Guðni og Eliza á móti gestum að athöfn lokinni. Nýr forseti veitti fjölmiðlum ekki viðtal við komu sína á Bessastaði í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×