Helga Dögg Sverrisdóttir, ein af skipuleggjendum samstöðufundar á Akureyri, segir stöðuna alvarlega og fundurinn því mjög mikilvægur svo stéttin geti talað saman og stappað stálinu hvert í annað.

Hún segir kennara á Akureyri vera tilbúna til að ganga lengra en þetta til að berjast fyrir hærri launum. Hún segir einnig að komi til verkfalls gæti það gerst að flótti bresti á í stéttinni. „Það er næga vinnu að hafa fyrir fólk með kennaramenntun í samfélaginu. Við sjáum það til dæmis glögglega í Reykjavík og í Reykjanesbæ. Þurfi að koma til verkfalls gæti ég séð mun fleiri hætta kennslu og færa sig um set á vinnumarkaði, fá mun betur borgað og þurfa ekki að fara á verkfallsbætur á meðan,“ segir Helga og bætir við að nýliðun í stéttinni sé allt of lítil. „Ef það er vilji til að viðhalda stéttinni með menntuðu og öflugu fólki þarf að sýna það í verki.“
Grunnskólakennarar á Ísafirði mættu einnig á fund bæjarráðs í gær og lásu þar upp áskorun til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Skoruðu kennarar á bæinn að samið yrði við grunnskólakennara sem fyrst. Ef ekkert verður að gert að mati kennara á Ísafirði mun grunnskólakerfið bíða alvarlegan hnekki. „Lág laun kennara hafa nú þegar valdið uppsögnum og sækja sífellt færri í kennaranám og margir menntaðir kennarar sækja í önnur störf. Alvarlegur kennaraskortur blasir því við á næstu misserum. Við krefjumst þess að grunnlaun kennara hækki nú þegar til samræmis við laun framhaldsskólakennara,“ segir í yfirlýsingu þeirra.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.