Fótbolti

Þrjú frábær mörk í sigri Fenerbache á Man Utd | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tvö draumamörk tryggðu Fenerbache góðan sigur á Manchester United í leik liðanna í Evrópudeildinni í kvöld.

Man Utd vann fyrri leik liðanna á Old Trafford með fjórum mörkum gegn einu en Tyrkirnir svöruðu fyrir sig í kvöld og unnu 2-1 sigur.

Öll þrjú mörkin í leiknum voru af dýrari gerðinni. Moussa Sow kom Fenerbache yfir með glæsilegri bakfallsspyrnu strax á 2. mínútu. Jermain Lens skoraði seinna mark Tyrkjanna með skoti beint úr aukaspyrnu á 59. mínútu.

Wayne Rooney, fyrirliði Man Utd, kastaði líflínu til sinna manna þegar hann minnkaði muninn með þrumuskoti af löngu færi á 89. mínútu. Nær komust gestirnir þó ekki.

Man Utd varð fyrir áfalli eftir hálftíma leik þegar Paul Pogba þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Zlatan Ibrahimovic tók stöðu hans. Svíinn var eitthvað illa fyrir kallaður og tók danska miðvörðinn Simon Kjær m.a. hálstaki í fyrri hálfleik.

Fenerbache er í 2. sæti A-riðils með sjö stig, jafnmörg og topplið Feyenoord en lakari markatölu. Man Utd er svo í 3. sætinu með sex stig. Zorya, sem gerði 1-1 jafntefli við Fenerbache í kvöld, rekur lestina með tvö stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.