Innlent

Telur stækkun Tennishallarinnar náttúruspjöll

Ingvar Haraldsson skrifar
Sverrir Óskarsson, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Kópavogi, þar sem umdeild viðbygging við Tennishöllina á að rísa.
Sverrir Óskarsson, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Kópavogi, þar sem umdeild viðbygging við Tennishöllina á að rísa. vísir/eyþór
„Mér finnst þetta ekki fara vel í dalnum. Núna langar fjöldann allan að byggja í dalnum. Það er erindi um skautahöll, það var einu sinni íþróttahús, íbúðabyggingar, skotsvæði og fleira,“ segir Sverrir Óskarsson, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Kópavogi, um fyrirhugaða viðbyggingu við Tennishöllina.

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti breytingu að deiliskipulagi fyrir viðbygginguna á síðasta fundi sínum með sex greiddum atkvæðum gegn fimm.

Sverrir segist vera því mótfallinn að byggja í Kópavogsdalnum, bærinn eigi aðrar lóðir sem starfsemin geti farið undir, til dæmis í efri byggðum bæjarins.

„Kópavogsdalurinn er bara náttúruperla sem við eigum að láta óáreitta,“ segir Sverrir.

Jónas Páll Björnsson, framkvæmdastjóri Tennishallarinnar, tekur ekki undir að verið sé að spilla náttúruperlu þar sem viðbyggingin eigi fyrst og fremst að rísa þar sem nú sé malarbílastæði austan megin við Tennishöllina.

Þrír innivellir á landinu

„Það hefur stundum verið talað um grænt svæði en þetta er fyrst og fremst svart svæði. Mér finnst að ef verið er að tala um grænt svæði þurfi það að vera grænt,“ segir Jónas.

„Þetta svæði er ekki fallegt og þetta snýst í raun og veru um það að nýta þetta svæði frekar undir íþróttastarfsemi og uppbyggilega starfsemi eins og við erum með og ýta bílunum frekar upp og út úr dalnum,“ segir Jónas.

Að sögn Jónasar hefði stækkun Tennishallarinnar miklar breytingar í för með sér fyrir tennisiðkendur hér á landi. Ekki sé hægt að spila tennis nema lítinn hluta ársins utandyra og nú séu aðeins þrír inni­vellir á landinu.

„Það má bera þetta saman við að það væru bara þrjú borðtennisborð á landinu,“ útskýrir Jónas.

Til stendur að byggja tvo innivelli í fullri stærð og tvo minni velli. Jónas vonast til að framkvæmdir geti hafist næsta vor fáist öll leyfi.

Hér er fyrirhugað að viðbyggin rísi. Deildar meiningar eru um bygginguna.vísir/stefán
Sverrir telur fyrirhugaða stækkun einnig stangast á við skipulagslög þar sem viðbyggingin hafni að hluta inni á svæði sem flokkað sé opið svæði í aðalskipulagi.

Sverrir lagði til að fengið yrði álit Skipulagsstofnunar áður en farið yrði með málið lengra. Meirihluti bæjarstjórnar féllst ekki á þá tillögu og afgreiddi málið með sex atkvæðum gegn fimm en meirihlutinn í málinu klofnaði.

Þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði með deiliskipulagsbreytingunni og tveir á móti.

Theódóra S. Þorsteinsdóttir, hinn bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar sem er formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar, greiddi atkvæði með tillögunni.

„Það voru engin rök sem komu fram í þessu máli sem að mínu mati voru það sterk að banna ætti stækkun upp á einhverja tvo velli,“ segir Theódóra.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Uppfært: Að neðan má hlusta á viðtal við Sverri í Bítinu á Bylgjunni í morgun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×