Innlent

Lyftir hátt í hundrað kílóum úr hjólastólnum

Una Sighvatsdóttir skrifar
Leifur Leifsson hreppti í vor titilinn sterkasti fatlaði maður Íslands í sitjandi flokki, og vann sér um leið inn keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum fatlaðra. Hann byrjaði upphaflega að æfa vegna þess að hann hugðist fara á Hvannadalshnjúk á handaflinu einu saman og þurfti að styrkja sig, en fram að því var hann hálfgerður antisportisti.

„Mér leiddist allt sport. Þ.e.a.s. að taka þátt í því, mér fannst ágætt að horfa á það. En svo þegar ég kom hingað inn þá hugsuðu allir lausnamiðað og allir tilbúnir að leysa allt. Engin vandamál og ég gat komið þegar mér hentaði, eins og mér hentaði tekið þátt eða ekki tekið þátt og þá bara var ég alveg seldur,“ sagði Leifur þegar fréttastofa hitti hann á æfingi í Crossfit Reykjavík.

Samstaðan geggjuð

Í samvinnu við Guðjón Hafliðason kraftlyftingaþjálfara ákvað Leifur að stefna á keppni og æfir nú sex daga vikunnar. Hann segir að til að ná árangri verði æfingarnar að vera erfiðar.

„Þegar maður er alveg búinn á því og Guðjón heldur áfram að öskra á mann þá verður maður að halda áfram þó það sé vont og mjólkursýran sé komin og allt sé í helli. En það er líka ógeðslega ljúft .“

Aðgengi fatlaðra að almennri líkamsrækt er ekki alltaf gott en Leifur, sem hefur verið bundinn hjólastól alla ævi, fann sig algjörlega hjá Crossfit Reykjavík. „Í raun og veru munar bara um alla þessa samstöðu sem ég hef fundið hérna. Sem er bara alveg geggjað ."



Hrönn Svansdóttir framkvæmdastjóri Crossfit Reykjavík segir að þar sé tekið jafnt á móti öllum, ungum sem öldnum og óháð bakgrunni eða getu í íþróttum.
Seiglan í Leifi öllum mikil hvatning

Og á stöðinni ríkir líka mikil stemning fyrir árangri Leifs. Á föstudaginn voru allar æfingar dagsins tileinkaðar honum og lagt í söfnunarsjóð fyrir ferð hann á heimsmeistaramótið. Framkvæmdastjóri Crossfit Reykjavík, Hrönn Svansdóttir, segir það hafa legið í augum uppi að styðja við Leif með ráðum og dáð.

„Leifur er mjög þekktur inni í stöðinni og er okkur öllum mikil hvatning. Það er sama hvernig viðrar eða hverjar aðstæður eru, hann er alltaf mættur á æfingu og tekur verulega vel á því. Hann hefur stundum sent mér skilaboð á föstudegi og segir hvernig er það á ekkert að mæta á æfingu á morgun.  Og hann tekur mig alltaf í bakaríið. Þannig að það vilja allir standa með honum, hjálpa honum að klára þetta og fara og fá þessa keppnisreynslu.“

Von er á harðri samkeppni á heimsmeistarakeppninni, sem fram fer í Englandi 14. ágúst en Leifur fer langt á jákvæðu hugarfari og segist einfaldlega ætla að gera sitt besta. „Það eru margir mjög stórir strákar og margir með öðru vísi fötlun en ég. En ég held ég eigi alveg einhverja möguleika.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×