Enski boltinn

Engar formlegar viðræður milli Benítez og Newcastle

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rafael Benítez á St. James Park?
Rafael Benítez á St. James Park? vísir/getty
Búist er fastlega við því að Rafael Benítez, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool, verði eftirmaður Steven McLaren hjá Newcastle, en hann var rekinn í morgun.

Samkvæmt heimildum Sky Sports er Benítez þó ekki kominn í formlegar viðræður við Newcastle, en haldið er fram að enska félagið sé búið að bjóða honum þriggja ára samning.

Newcastle vildi fá Benítez í stjórastöðuna áður en liðið mætir Leicester á mánudagskvöldið en nú virðist sem Ian Cathro, aðalþjálfari Newcastle, og Peter Beardsley stýri liðinu á mánudaginn.

Rafael Benítez hefur áður stýrt Liverpool á Englandi frá 2004-2010 og þá tók hann við sem bráðabirgðastjóri Chelsea og vann Evrópudeildina 2013.

Sem stjóri Liverpool vann hann Meistaradeildina 2005 og kom liðinu aftur í úrslitaleikinn tveimur árum síðar. Þá gerði hann Valencia tvisvar sinnum að Spánarmeistara 2002 og 2004.

Newcastle hefur tjaldað miklu til í leikmannakaup á tímabilinu en þrátt fyrir það er liðið í fallsæti, einu stigi frá öruggu sæti, þegar það á tíu leiki eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×