Enski boltinn

Fékk heilahristing og hélt að árið væri 1996

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michael Keane.
Michael Keane. vísir/getty
Michael Keane, varnarmaður Burnley í ensku B-deildinni, glataði viku úr minni sínu eftir heilahristing sem hann fékk í 2-0 sigri liðsins gegn Rotherham í síðustu viku.

Keane, sem ólst upp hjá Manchester United, fékk höfuðhögg í leiknum sem var það alvarlegt að hann vissi ekki hvað ár var.„Læknirinn spurði mig hvaða ár væri og ég hélt að það væri 1996. Ég var í ruglinu,“ segir Keane í viðtali við BBC.

Þessi 23 ára gamli varnarmaður spilaði 32 mínútur eftir að fá höfuðhöggið en hefði betur sleppt því. „Mér leið þá eins og ég gæti haldið áfram en síðan féll ég til jarðar eftir fast leikatriði og sá ekki neitt.“ segir Keane.

„Fyrst um sinn var ég alltaf með svima og svo mundi ég ekki hvað hafði gerst í vikunni sem leið. Í alvöru. Það var hugsað vel um mig á spítalanum. Ég fór í nokkrar rannsóknir en það tók sinn tíma að komast í lag. Sem betur fer er í lagi með mig núna.“

„Þegar ég horfi til baka var hárrétt að taka mig af velli. Menn verða að passa mig mjög vel þegar kemur að höfuðmeiðslum,“ segir Michael Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×