Lífið

Getum gert svo margt til að bæta heiminn

Snærós Sindradóttir skrifar
Forsetahjónin og börn þeirra hafa komið sér vel fyrir á Bessastöðum. Eliza stendur hér í móttökusal Bessastaða en í íbúðarhúsinu hefur fjölskyldan innréttað með sínum eigin húsgögnum, meðal annars fimmtán ára gömlum IKEA-sófa.
Forsetahjónin og börn þeirra hafa komið sér vel fyrir á Bessastöðum. Eliza stendur hér í móttökusal Bessastaða en í íbúðarhúsinu hefur fjölskyldan innréttað með sínum eigin húsgögnum, meðal annars fimmtán ára gömlum IKEA-sófa. Vísir/Stefán
Við erum farin að upplifa Bessastaði sem heimili okkar. Það hjálpar sannarlega til að hafa húsgögnin okkar í íbúðarhúsinu. Fimmtán ára gamli IKEA-sófinn fylgdi með ásamt öllu öðru. Kisan okkar flutti líka með okkur og er eftir sem áður drottning híbýlanna,“ segir Eliza Reid forsetafrú. Á morgun, jóladag, er nákvæmlega hálft ár síðan Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn sjötti forseti lýðveldisins.

Þetta eru því fyrstu jól forsetahjónanna og barna þeirra fjögurra á Bessastöðum. Rut, dóttir Guðna, býr á stúdentagörðum Háskóla Íslands. „Við hlökkum til að halda upp á jól með sama hætti og við höfum gert í gegnum árin. Ég er alin upp við að jóladagur sé stóri dagurinn og þá kemur fjölskylda Guðna í heimsókn. Við eldum kalkún og opnum gjafir. Jólasveinninn kemur að morgni jóladags en í aðdraganda jólanna hafa íslensku jólasveinarnir líka gefið í skóinn. Þeir eru samt kannski ekki jafn örlátir og þeir væru ef rauðklædda jólasveinsins nyti ekki við.“

Eliza er fædd og uppalin í Ottawa í Kanada. Þegar þetta er skrifað er sextán gráða frost í heimabæ hennar. „Þegar ég var að alast upp voru veturnir mjög bjartir. Þá var alltaf snjór og rosalega kalt. Ég sakna þess ekki að þurfa að hlaupa kappklædd á milli húsa en ég sakna birtunnar mikið.“

Starfið venst vel

Eliza var síðast í viðtali við Fréttablaðið í byrjun maí, stuttu eftir að Guðni bauð sig fram til forseta. Þá sagði Eliza að hún myndi fljótt finna sér verkefni á Bessastöðum og ekki láta sér leiðast. Það markmið hefur gengið eftir en Eliza er nú verndari fernra samtaka. Allt málaflokkar sem hún vill varpa ljósi á.

„Ég er enn að læra inn á starfið en ég reyni að vera mjög virk. Ég fylgi auðvitað eiginmanni mínum á alls kyns viðburði en sjálf hef ég líklega haldið um tuttugu ræður við ýmis tilefni, skrifað greinar, farið í viðtöl, afhent verðlaun og allt hvaðeina.“

Eliza er meðal annars verndari Eyrarrósarinnar. Verkefnið er mjög tengt hennar fyrri störfum hjá Ice­land Writers Retreat, verkefni sem hún stofnaði sjálf, meðal annars til að vekja athygli á íslenskum bókmenntum. „Eyrarrósin veitir viðurkenningar fyrir listir og menningu á landsbyggðinni. Glöggt er gests augað og það mætti halda að hver einasti Íslendingur spili á hljóðfæri, skrifi ljóð, máli eða hanni föt. Það eru algjör forréttindi að vinna að verkefni sem viðurkennir þessa fjölbreyttu menningarflóru í landinu.“

Eliza forsetafrú er alin upp við að jóladagur sé stóri dagurinn yfir hátíðarnar. Þá kemur fjölskylda Guðna í heimsókn og boðið er upp á kalkún sem eldaður verður af forsetahjónunum. Fréttablaðið/Stefán
Eliza er einnig verndari Alz­heimersamtakanna, sem Guðni, maðurinn hennar, vakti rækilega athygli á með því að skarta forláta buffi merktu þeim við opinbert tækifæri nærri Bessastöðum. „Síðan þá höfum við fengið send nær fimmtíu buff. Við ættum að halda buff-sýningu á Bessastöðum. Það væri fyndið,“ segir Eliza.

„Mér finnst að Guðni eigi að klæðast hverju sem hann vill. Ég treysti skynsemi hans þegar kemur að því að standa vörð um virðingu forsetaembættisins. Þeir sem ekki hafa komið á Bessastaði á vindasömum degi ættu nú ekki að dæma um hvort buff sé við hæfi eða ekki. Þetta buff hefur að minnsta kosti gert góða hluti fyrir Alzheimersamtökin.“

Börnin í Aleppo

Þá er Eliza sendiherra SOS Barnaþorpa, góðgerðarsamtaka sem reka þorp og heimili fyrir munaðarlaus börn um allan heim. Í þorpunum fá börnin umönnun og verða hluti af fjölskyldu, fá menntun og umsjón þar til þau verða sjálfráða. Þúsundir Íslendinga styrkja einstök börn í þorpunum með mánaðarlegri greiðslu og fá af þeim reglulegar fréttir og upplýsingar um heilsu þeirra og gengi í skóla.

„Vegna þess að ég kem frá öðru landi, hef menntað mig fjarri heimaslóðum og ferðast mikið þá hef ég mjög mikinn áhuga á alþjóðamálum. Mér finnst mikilvægt að við séum meðvituð um að við búum öll á sömu jörð. Við Guðni höfðum lengi styrkt barn, allt frá því við bjuggum í Englandi, svo þegar SOS Barnaþorp höfðu samband og báðu mig um aðstoð vildi ég strax slá til. Það sem þau gera er mjög mikilvægt,“ segir Eliza.

Sjálf styður hún nú barn í borginni Ouagadougou í Búrkína Fasó. „Ég kom þangað fyrir tíu árum svo ég hef persónulega tengingu við staðinn. En SOS Barnaþorp eru líka með aðsetur í Sýrlandi og þau þorp þarf að styðja.“

Eliza sat einmitt fyrirlestur fyrir skömmu hjá Þóri Guðmundssyni á vegum Rauða krossins. „Hann er einn af þeim sem voru á Miðjarðarhafinu í nóvember að bjarga fólki sem er að koma yfir til Evrópu. Hann benti á að fólkið þar er að flýja eitthvað. Það er ekki að reyna að komast annað í einhverju tilgangsleysi. Það er að flýja heimili sitt því þar er ekki hægt að búa lengur. Ég hef bara séð myndirnar og heyrt sögurnar eins og allir aðrir en ég get samt ekki ímyndað mér þetta. Ég finn fyrir algjöru máttleysi gagnvart hryllingnum sem á sér stað í Aleppo núna.“

Eliza á sjálf fjögur ung börn og hefur oft reynt að setja sig í spor þeirra fjölskyldna sem þurfa að flýja heimili sitt vegna stríðsátaka. „Við fáum þessa knýjandi þörf til að gera eitthvað og stundum fylgir því algjört vonleysi yfir því litla sem við getum gert. En við megum ekki enda með að gera ekkert. Ein manneskja getur ekki leyst vandamál heimsins en hún getur vonandi gert lífið örlítið betra fyrir einhvern. Þegar fólk styrkir góðgerðarmál leggur það sitt af mörkum til þess, þó að hlutirnir gerist hægt.

Það er líka gagnlegt að tala um hlutina. Ég hef alltaf sagt að fólk eigi að skrifa til þingmanna og ráðherra til að lýsa yfir ánægju sinni eða óánægju með hlutina. Því meira sem fólk reynir að gleyma ekki sumum af þeim hræðilegu hlutum sem eiga sér stað því meiri pressa myndast til að eitthvað gerist.“

Litlu þúfurnar velta þungu hlassi

„Við eigum líka að fræða börnin um það sem gengur á í heiminum með þeim hætti að hæfi þeirra aldri. Sonur okkar spurði um daginn hvort hann mætti fá peninga í jólagjöf til að gefa til UNICEF eða Rauða krossinum fyrir börnin í Aleppo. Það er mjög erfitt að útskýra þetta fyrir krökkunum en ég held að það sé mikilvægt að sýna ungu fólki að við höfum tækifæri til að stuðla að breytingum og láta rödd okkar heyrast. Við getum tekið þátt í starfi sjálfboðaliða eða látið fé af hendi rakna til góðgerðarmála.“

Eliza er nýorðin verndari fjórðu samtakanna, Pieta á Íslandi, sem eru írsk að uppruna en eru að styrkja sig hér á landi til að ráðast í forvarnir gegn sjálfsskaða og sjálfsvígum. „Markmið þeirra er að opna miðstöð á Íslandi sem fólk sem stundar sjálfsskaða eða er í sjálfsvígshugsunum, eða fjölskyldur þeirra og vinir, getur leitað til allan sólarhringinn og fengið aðstoð og ráðgjöf.

Bæði Alzheimersamtökin og Pieta beina sjónum sínum að málefnum í okkar samfélagi. Þetta eru málefni sem mættu gjarnan fá meiri athygli. Pieta beinist kannski í meiri mæli að unga fólkinu okkar og opnar vonandi umræðuna um þennan vanda. En Alzheimersamtökin eru líka að reyna að varpa ljósi á heilaskaða yngra fólks. Margir sjá fyrir sér að Alzheimersjúklingar séu bara gamalt fólk en það er yngra fólk að greinast á fyrri stigum sjúkdómsins og sumir að fá heilaskaða um fertugt. Kerfið er ekki alveg viðbúið því.“

„Varðandi Pieta, sem eru ný samtök, þá vil ég svo gjarnan hjálpa til við að varpa ljósi á málefnin sem þau eru helguð. Unglingar og táningar hafa oft á tilfinningunni að engum líði eins og þeim. Enginn geti skilið hvað þau eru að ganga í gegnum. Ég vona að ráðgjöfin sem samtökin ætla að veita hjálpi einstaklingum, sem líður illa, að skilja að þeir standa ekki einir í veröldinni og sjálfsagt er að tjá sig um sína líðan. Mér líst mjög vel á starf þeirra.“

Raddir berast betur á Íslandi

Eins og vel hefur komið fram er Eliza frá Kanada. Hún og Guðni kynntust við nám í Oxford á Englandi og saman fluttu þau til Íslands fyrir þrettán árum.

„Mér hefur alltaf liðið eins og ég sé velkomin hér á landi. Ég held að almennt bjóði Íslendingar fólk mjög velkomið hingað til lands. Kannski er það af því að svo mörg okkar hafa búið erlendis og við höfum þar með skilning á hvernig það er að aðlagast nýrri menningu og umhverfi. Ég er innflytjandi með íslenskan ríkisborgararétt og upplifi mig bæði íslenska og kanadíska. Íslendingar hafa tekið mér alveg ofsalega vel,“ segir Eliza.

Elizu er tíðrætt um orðatiltækið glöggt er gests augað. Hún segist sjá Ísland í öðru ljósi en margir sem eru hér bornir og barnfæddir. Smæð samfélagsins sé kostur. „Þetta hefur með lýðræðið að gera. Ef fólk hér er óánægt með hlutina þá lætur það í sér heyra og krefst breytinga. Það er merki um heilbrigt lýðræði. Af því að við erum svo fámenn þjóð þá getum við breytt hlutunum hraðar en víða annars staðar. Þegar raddirnar eru færri þá berst hver og ein rödd betur.“

Eliza vill nýta þennan slagkraft íslensku þjóðarinnar á alþjóðavísu. Hún vill til dæmis að meira verði gert úr góðri stöðu jafnréttismála hér á landi í þeirri von að hægt sé að hafa jákvæð áhrif um heim allan. „Ísland er leiðtogi á sviði jafnréttismála. Það er eitthvað sem við ættum að vera stolt af og höfum alveg efni á að gera mikið úr. Við eigum að meta hvernig okkar lærdómur hér á landi getur hjálpað öðrum að bæta úr stöðu stúlkna og kvenna. Og auðvitað hvernig við getum haldið áfram að bæta okkur hér á á landi.“

Samanburðurinn við Kanada sýni til dæmis að á Íslandi sé barnvænt samfélag sem geri báðum foreldrum auðvelt að vera úti á vinnumarkaði. Það sé þjóðhagslega hagkvæmt en einnig mikilvægt til að sú menntun sem íslenskar konur sæki sér, og sé fjárfesting samfélagsins, fari ekki til spillis. „Ég hef alltaf verið femínisti og ég er hægt og rólega að átta mig á því að í þeirri stöðu sem ég er í núna hef ég tækifæri til að gera jafnréttismálum hátt undir höfði.“

En Ísland stendur framarlega í fleiri sviðum. „Þetta litla land hefur tækifæri til að verða að liði á heimsvísu í svo mörgum hlutum, ekki bara samkvæmt einhverri höfðatölu. Tækni í sjávarútvegi og öll nýsköpunin sem hér er í gangi er frábær. Aðrar þjóðir geta margt af okkur lært um nýtingu á jarðhita. Náttúruvernd er sterk, landgræðslan t.d. efniviður í einn af skólum Sameinuðu þjóðanna sem hér er starfandi.“

Jólin á Bessastöðum

Börnin á Bessastöðum eru fjögur en Guðni á einnig fullorðna dóttur úr fyrra hjónabandi. Þrátt fyrir að börnin séu nú flutt á Bessastaði hyggjast hjónin halda í hefðirnar sem höfðu skapast á þeirra fyrra heimili á Seltjarnarnesi og þar á undan í Vesturbæ Reykjavíkur. „Við höfum aldrei keypt mjög stórar gjafir fyrir börnin okkar. Ein af mínum eftirlætishefðum síðastliðin ár er að fara að kaupa jólagjafir með eldri börnunum. Ég elska að ganga Laugaveginn þegar búðirnar eru opnar fram eftir kvöldi og jólaljósin hafa verið tendruð. Það er svo frábært andrúmsloft. Síðustu ár hefur Guðni verið heima með yngri börnunum en ég tek þau eldri í strætó á Hlemm og gef þeim 5.000 krónur hvoru til að kaupa jólagjafir.“

Börnin þurfa að sýna skynsemi því 5.000 krónur endast skammt í verslun hér á landi. „Þau mega gera hvað sem er fyrir peningana, nema ekki stinga þeim í eigin vasa. Þau mega eyða öllu í eina gjöf og föndra hinar eða kaupa jafn stórar gjafir handa öllum systkininum, ömmum, öfum og pabba sínum. Þeim finnst þetta æðislegt. Við förum í búðir þar sem verðlagið er hagstætt, og krakkarnir velja gjafir. Svo skipa þau mér kannski að fara út á meðan þau velja gjöf fyrir mig. Í lokin förum við og fáum okkur kakóbolla á einhverju kaffihúsi áður en við förum heim aftur.“

Eliza segir að þó hefðin sé skemmtileg kenni hún börnunum líka að fara vel með fé. „Á jólunum eru þau svo ótrúlega spennt þegar við opnum gjafirnar frá þeim, jafnvel spenntari en að fá gjafir sjálf. Ég held að í þessu felist mikilvæg skilaboð um að það er sælla að gefa en þiggja eins og máltækið segir.“

Þótt haldið sé í hefðir fer það stundum svo að börnin fá ekki nýja flík á jólunum. „Ég ætti auðvitað ekki að viðurkenna þetta því þá étur jólakötturinn börnin. En við reynum að hafa þetta afslappað. Ég er ekkert að stressa mig um of á því að þrífa fyrir jólin eða hafa allt fullkomið.

Mér finnast jólin alltaf dásamlegur tími. En ég veit að þetta getur líka verið erfiður tími fyrir marga. Myrkrið er svart og tíminn einkennist mikið af því að horfa um öxl, til ársins sem er að kveðja. Það getur verið sérstaklega erfitt fyrir þá sem hafa misst einhvern. Mér finnst jólin einmitt vera rétti tíminn til að hafa aðra í huga. Bjóða þeim sem eru einir yfir hátíðarnar í mat og létta undir með þeim sem eiga svolítið erfitt. Sem einstaklingar getum við ekki leyst öll heimsins vandamál en við getum gert svo margt með því að leggja okkur fram við að láta öðrum líða vel.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.